131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Forvarnir í fíkniefnum.

102. mál
[12:46]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og óska hv. þingmanni sem mælti hér á undan mér til hamingju með jómfrúrræðu sína sem hún flutti þremur korterum eftir að hún tók sæti á Alþingi og var vasklega gert.

Kjarninn í mínu máli er þessi: Hvar er það sérstaka átak sem Framsóknarflokkurinn boðaði í baráttunni gegn fíkniefnamálum? Það er kjarni málsins. Flokkurinn boðaði sérstakt átak og nefndi milljarð króna til að berjast gegn fíkniefnum. Meginmálið er það að neyðin vegna fíkniefnafaraldursins, t.d. á meðal unglinga, er eitt alvarlegasta meinið í samfélagi okkar. Það er að rústa fjölda fjölskyldna. Hver þekkir ekki sögurnar af handrukkurunum og hryllingnum öllum í kringum það þegar unglingar og ungt fólk leiðist út í eiturlyfjaneyslu? Við því verðum við að bregðast. Þetta er allt spurning um forgangsröðun og ég efast ekki um að hæstv. ráðherra hafi vilja til að berjast gegn þessu máli. En ekkert bólar á milljarðinum og ekkert bólar á hinu sérstaka átaki sem Framsóknarflokkurinn boðaði í baráttunni gegn fíkniefnum. Þvert á móti erum við að láta undan síga. Staðan hjá SÁÁ sýnir að við erum að láta undan síga í meðferðarúrræðum og baráttunni gegn fíkniefnum. Því væri forvitnilegt að heyra hvort hæstv. ráðherra ætlar að bregðast við bráðavanda SÁÁ svo dæmi sé tekið. Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að það átak sem Framsóknarflokkurinn boðaði í kosningunum 1999 muni eiga sér stað? Tölurnar tala sínu máli. Staðan í meðferðarúrræðum og forvarnamálum tala sínu máli. Við erum að gefa eftir. Vandinn eykst og æ fleiri Íslendingar verða fórnarlömb þess hryllings sem eiturlyfin eru og við getum gert ýmislegt í því. Þetta er spurning um forgang og því verð ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann og hvernig hann ætli að beita sér af enn meira afli í þeirri baráttu.