131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Byggingarmál Iðnskólans í Reykjavík.

237. mál
[14:01]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég vil í fullri alvöru og einlægni þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Þau voru ekki ljós en staða mála er þannig að þau geta ekki orðið miklu ljósari að sinni.

Það er rétt að önnur verkefni hafa orðið á undan í þeirri nefnd sem til varð í kjölfar samkomulagsins milli borgarstjóra og menntamálaráðherra í september í fyrra. Ég held að kannski væri ráð að hæstv. menntamálaráðherra ræddi á ný við borgarstjóra eða borgaryfirvöld um það að taka Iðnskólann í Reykjavík út úr þessu og huga sérstaklega að vandamálum hans. Þau eru annars konar, þau eru flóknari og erfiðari, m.a. vegna þess sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir minntist á, að þetta svæði er ákaflega þröngt og erfitt að gera þar öllum til hæfis. Þó held ég að mjög mikilvægt sé að hafa Iðnskólann þarna áfram fyrir borgarlífið í Reykjavík.

Ég vonast til þess að við getum fengið betri og meiri fréttir af þessu en vil spyrja ráðherra að auki, vegna þess að það er sérstaklega tekið fram í samkomulaginu, hvernig gangi að marka stefnu um nánari verkaskiptingu og sérhæfingu framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur því auðvitað við og efling Iðnskólans hlýtur að vera í beinu framhaldi af þeirri stefnumörkun.