131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla.

233. mál
[14:29]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég heyri að við erum sammála um það, við fyrirspyrjandi, að mikilvægt er að hér sé vandað til verka og það er þannig sem lagt er upp í þessa vinnu. Hún tekur vissulega lengri tíma en við kannski flest áttuðum okkur á í upphafi.

Því er til að svara þegar spurt er hvers vegna svo lengi dróst að koma verkinu af stað, að það eru kannski tvær ástæður fyrst og fremst. Annars vegar að verkið er umfangsmeira en menn ætluðu í fyrstu og hins vegar að í millitíðinni, frá því að Alþingi samþykkti þá ályktun sem hér er til umræðu og þar til verkinu var hrint af stað, fóru fram alþingiskosningar sem vissulega tafði upphaf málsins eitthvað.

Aðalatriðið er að mínu viti, hæstv. forseti, að hér er verið að vanda til verksins. Að því eru fengnir þeir sem best hafa vit á. Það tekur vissulega heldur lengri tíma en lagt var upp með í upphafi en stóra málið er, eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda, að hér sé þá tekið á því af fullum krafti og með það að markmiði að skila góðum árangri.