135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fátækt barna á Íslandi.

127. mál
[14:52]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu margs að gæta þegar farið er með tölur af þessu tagi. Þær eru að sjálfsögðu ekki einhlítar og beitt er aðferðum, að hluta til í tilraunaskyni, til að leiða fram niðurstöður sem síðan er hægt að nýta sér við að móta stefnu til að leysa vandamál, beina kröftum ríkisvaldsins að tilteknum vandamálum. Það er það góða við þessar upplýsingar og umræður eins og þær sem hér hafa farið fram. Aðalatriðið er það að við reynum að bæta okkur í þessum efnum. Ég tek undir það að þó að tölurnar á Íslandi séu með því lægsta sem gerist í Evrópu getum við bætt okkur og eigum að gera það. Fátækt er því miður til, bæði meðal foreldra og barna, og við þurfum að reyna að taka höndum saman um að uppræta hana. Það þarf að gera það með markvissum aðgerðum.

Eins og ég gat um kemur það hins vegar einnig fram í gögnunum að sem betur fer er sá hópur lítill sem festist í fátæktargildru hér á Íslandi og kemst ekki úr henni. Þó að það sé allt rétt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði um áhrif fátæktar á börn er mest um vert að búa þannig um hnútana að þau og foreldrar þeirra geti komið sér út úr því ástandi, fátækt meðal barna er ekki þess eðlis að hún lifi sjálfstæðu lífi. Hún er auðvitað í mjög nánu samhengi við afkomu og aðstæður foreldra eða forráðamanna. Þess vegna hangir það allt saman og ríkisstjórnin beina kröftum að málinu eins og fram kemur í aðgerðaáætlun hennar í málefnum barna og unglinga sem Alþingi samþykkti á síðasta vori.