135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

eftirlit með ökutækjum í umferð.

123. mál
[19:43]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta nema að þakka hv. þingmanni fyrir að taka málið upp vegna þess að eins og fram hefur komið er hér víða pottur brotinn og málið þarf að taka til endurskoðunar. Ég fullyrði að ég hafi tekið jákvætt undir allar þær spurningar sem fram komu og lýst því hvernig málið verður unnið með endurskoðun umferðarlaga.

Af því að ég er kominn aftur í ræðustól, virðulegi forseti, langar mig til að nefna, í tengslum við þessa spurningu og þá spurningu sem kemur hér á eftir, að sýslumaðurinn í Bolungarvík, Jónas Guðmundsson, boðaði mig til fundar. Hann útskýrði sýn sína á umferðarmálin sem er afar athyglisverð en hann hefur ákveðnar hugmyndir um hvernig herða megi á eftirlitinu og vinna það með ákveðnum hætti. Það sem hann nefnir er mjög spennandi kostur. Frumkvöðlastarfið sem sýslumaðurinn vinnur gæti orðið til þess skapa störf hvað þetta varðar, eftirlit til að boða til skoðunar og fylgjast með óskoðuðum tækjum. Það er í raun glæpsamlegt að vera með óskoðaða og óökufæra bíla í umferðinni og hugmyndir eru um að flutt verði störf til sýslumannsins og hann fái að fylgja málinu eftir. Eftir á að útfæra það nánar en þakka ber fyrir það frumkvæði sem sýslumaðurinn hefur sýnt.