135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

áfengisneysla og áfengisverð.

225. mál
[21:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur ekki tekið alveg rétt eftir þegar ég svaraði áðan. Ég sagði aldrei að verð og aðgengi hefði ekki áhrif á neyslu áfengis og vék ekki að því einu einasta orði. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að á undanförnum árum eða áratug hefur orðið raunlækkun á áfengi og sömuleiðis hefur aðgengi aukist mjög mikið á Íslandi. Það sem ég sagði hins vegar, virðulegi forseti, var að flóknar og fjölbreytilegar ástæður og fleiri þættir spila þarna inn í, t.d. er alveg ljóst að aukinn kaupmáttur þýðir alla jafna aukna neyslu og það sem þvælist fyrir þegar menn skoða magntölur eru m.a. þættir eins og fjöldi ferðamanna. Það er vel þekkt að sums staðar í Evrópu fara menn á milli landa til að kaupa sér áfengi. Þetta er því ekki einhlít mynd og það eru margir fletir á þessu máli. Ég tel mjög mikilvægt fyrir okkur að ræða þessi mál og ég fagna því að hv. þingmaður taki þetta upp hér og við förum yfir þetta mikilvæga mál því svo sannarlega gæti þetta haft slæmar afleiðingar í för með sér ef við vöndum okkur ekki og það eigum við auðvitað að gera. Við eigum að skoða reynslu annarra þjóða og við eigum að skoða rannsóknir og bestu gögn sem við höfum þegar við metum þetta.

Ég hélt því aldrei fram að verð og aðgengi skipti ekki máli, virðulegi forseti, en ég sagði hins vegar eins og er að myndin er flóknari og ég rakti það reyndar að aðgengi hefði aukist á undanförnum árum.