138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir ræðu hans. Dagarnir eru nú aðeins farnir að renna saman en í gær hélt hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, þingræðu hér. Hann sagði m.a. að Evrópusambandið hefði haft uppi grímulausar hótanir vegna Icesave-málsins og að endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði verið í gíslingu vegna málsins. Í morgun, í óundirbúnum fyrirspurnum, spurði hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra út í þessi ummæli fjármálaráðherra. Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, virtist ekkert kannast við það að Evrópusambandið hefði haft nokkrar hótanir uppi í garð Íslendinga vegna Icesave-málsins. Þarna virðist vera, að mati hæstv. forsætisráðherra, einhver misskilningur í gangi.

Ég hefði mikinn áhuga á að heyra skoðun þingmannsins á þeim misskilningi sem virðist líka vera uppi hjá Evrópuþinginu, þar sem hefur komið fram að þingmenn á Evrópuþinginu samþykktu ályktun, að vísu ekki bindandi, þar sem skorað var á Alþingi Íslendinga að afgreiða ríkisábyrgð á Icesave-samninginn við Hollendinga og Breta og virtust tengja það við ESB-umsóknina. Það virtist vera hætta á því að ef það færi ekki í gegn og gengi ekki hratt og vel fyrir sig hefði það áhrif á hvernig aðildarumsókn yrði afgreidd í gegnum þingið. Það er náttúrlega nefnt að framfylgd EES-samningsins sé nauðsynlegur þáttur í yfirvofandi mati sambandsins á umsóknarríkjum sambandsins, en samningurinn nær m.a. yfir innstæðutryggingar.

Hvor þeirra segir satt? Er það hæstv. fjármálaráðherra eða er það hæstv. forsætisráðherra? Eða virðist bara vera einhver misskilningur í gangi á milli ráðherra í ríkisstjórninni og er þá ekki spurning hvort þeir ættu ekki að fara að hittast og reyna að samræma málflutning sinn? Það væri mjög áhugavert að heyra skoðun þingmannsins á þessu.