138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem ég ætlaði að koma inn á í seinna andsvari, það er einmitt þessi setning, að við þurfum þá að taka frá einhverju öðru ef við ætlum að greiða þetta. Ef við skoðum þetta sögulega samhengi er mjög sérkennilegt að þessi mikli viðskiptajöfnuður eigi allt í einu að verða til og í sjálfu sér er það líka kaldranalegt að spá versnandi lífskjörum eins og hv. þingmaður benti á.

Hér hefur verið bent á, og ég hef verið að leita svara við þessari spurningu, að tæplega 80 þúsund tekjuskattsgreiðendur munu þurfa að standa undir greiðslum af Icesave fram til ársins 2016. Það eru um 180 þúsund tekjuskattsgreiðendur á Íslandi þannig að eftir eru einhver 100 þúsund til að nota í aðrar greiðslur. Ég hef ekki enn fengið svör við því hvernig gert er ráð fyrir þessum greiðslum í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur frammi og þeim framtíðarhorfum eða framtíðaráætlunum sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir eru með á sínum snærum. Hvert er mat hv. þingmanns á þessu? Er verið að gera ráð fyrir 180 þúsund skattgreiðendum í fjárlagavinnunni eða er verið að gera ráð fyrir 100 þúsund tekjuskattsgreiðendum? Mér vitanlega gengur það ekki upp að nota skatta sömu einstaklinga í að borga af Icesave-reikningunum og að standa undir velferðarkerfinu og öllu því sem íslenskt samfélag býður upp á í dag. Getur verið að það sé einhver hugsunarvilla að baki hjá ríkisvaldinu?