141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

snjóflóðavarnir.

244. mál
[17:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni að auðvitað þurfum við sem höldum um peninga ríkisins að horfa vel til allra þeirra ógna sem eru í kringum byggð. Þar er Reykjavíkursvæðið að sjálfsögðu ekki undanskilið þegar kemur að bæði jarðskjálftum og hraunrennsli sem munu fyrr eða síðar ógna byggð á þéttbýlu höfuborgarsvæðinu.

Ég vil samt halda því til haga þegar kemur að hinum eiginlega ofanflóðasjóði, sem hefur verið einkum notaður til að gera leiðigarða og varnargarða og annað í þeim dúr, að þrátt fyrir efnahagshrunið benda allar tölur eindregið til þess að stjórnvöld hafi lagt sitt rækilega af mörkum til þess að halda þó þeim dampi sem hefur verið í þessum málum á undanliðnum árum og hvergi slakað á í þeim efnum. Það er athyglisvert að einmitt á þenslutímanum, 2002–2009, var dregið úr þessum framkvæmdum. Þrátt fyrir efnahagshrunið sjálft, sem er miklu óskaplegra heldur en nokkurn tímann skeiðið sem var þar á undan, höfum við ekki farið niður fyrir það framleiðslustig sem var á þeim tíma fyrir hrun. Það er gleðiefni. Fyrir það ber að þakka.

Margir kynnu að halda að á árinu eftir hrun hafi verið dregið verulega úr slíkum framkvæmdum frá því sem það var fyrir hrun, en þessar tölur, þetta svar hæstv. ráðherra, sýnir svo ekki verður um villst að dampurinn er enn þá sá sami. Það vitnar um þá staðreynd að líf fólks og velferð er í (Forseti hringir.) öndvegi hjá þeirri ríkisstjórn sem nú er við stjórnvölinn.