143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni frábæra ræðu þar sem farið var vítt og breitt og kjarnanum haldið til haga. Hér er náttúrlega um að ræða gríðarlega mikilvægt stefnuplagg og rétt, sem kemur fram í máli hv. þingmanns, að stefnuyfirlýsingin dugar ekki því að við sjáum hver stefnan er í fjárlagafrumvarpinu. Þar sjáum við hvar ríkisstjórnin vill leggja sínar áherslur.

Hv. þingmaður kom inn á mjög áhugaverðan punkt, sem við höfum kannski ekki rætt mikið, og það er umræðan um það hvað eru „heimilin í landinu“. Þetta var frasi sem var notaður mjög mikið í aðdraganda kosninga, þ.e. að ef maður vildi styðja heimilin í landinu ætti maður að kjósa Framsóknarflokkinn, það væri flokkurinn sem stæði með heimilunum í landinu.

Ég hef svolítið verið að velta fyrir mér: Hvað með heimili námsmanna, heimili leigjenda, heimili veiks fólks, heimili ungra fjölskyldna? Með því að draga úr (Forseti hringir.) samneyslunni og samfélaginu er verið að ganga á þessi heimili líka, (Forseti hringir.) því að samfélagið er auðvitað samfélag heimila.