144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það hlýtur öllum að vera ljóst að þessi tillaga formanns atvinnuveganefndar er stríðshanski, alger stríðshanski inn á þetta svið umhverfismálanna. Með þessu er einfaldlega verið að henda lögunum um mat á umhverfisáhrifum, það er verið að ómerkja fullkomlega verkefnisstjórn og hlutverk hennar um að skoða faglega og bera saman kosti. Þetta er þeim mun grófara sem í bréfi ráðherra til verkefnisstjórnarinnar var hún beðin um að fara yfir flesta ef ekki alla þá kosti en hún lagði þá til hliðar eftir faglega skoðun og sagði að það þyrfti bæði meiri tíma og meiri upplýsingar áður en hægt væri að taka afstöðu til flokkunar þessara kosta.

Þessu yrði öllu hent, öllu eins og það leggur sig, og friðurinn fullkomlega slitinn í sundur í þessum málum ef menn hafa ekki vit fyrir formanni atvinnuveganefndar og koma honum frá villu síns vegar. Auðvitað er dapurlegt ef á að túlka innhlaup hæstv. fjármálaráðherra þannig að þetta njóti stuðnings víðar en hjá formanni nefndarinnar, ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því. (Forseti hringir.) Þá er líka komið í ljós, herra forseti, til hvers var verið að troða málinu í atvinnuveganefnd.(Forseti hringir.) Til þess voru þá refirnir skornir eftir allt saman.