144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er algjörlega óskiljanlegt af hverju ríkisstjórnin vill fara í stríð um þetta mál. Þetta er ekkert annað en afgerandi stríðsyfirlýsing. Það sem er að gerast með þessari málsmeðferð er að allt landið, Ísland frá fjalli til fjöru, er í nýtingarflokki. Ísland er komið aftur í nýtingarflokk eins og það leggur sig og lögin um rammaáætlun að engu höfð. Það er staðan.

Eru menn hræddir við þessa umræðu? Af hverju þarf bara viku? Af hverju má ekki ræða málið úr því að þetta er svona málefnalegt og eðlilegt og stórkostlegt? Af hverju þarf bara viku til þess að fara yfir þetta mál? Við hvað eru sjálfstæðismenn hræddir?

Ég lýsi eftir skoðun framsóknarmanna á svo dramatískri breytingartillögu við tillögu umhverfisráðherra um að flytja einn kost úr bið í nýtingarflokk. Hefur þetta verið rætt á ríkisstjórnarfundum? Það er það (Forseti hringir.) mikill pólitískur þungi í þessu máli að það hlýtur að hafa verið gert. Ég vil (Forseti hringir.) fá upplýsingar um það í ljósi þess að menntamálaráðherra talar (Forseti hringir.) um að nú sé komið að því að allt sé rætt og allt sé opið.