144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. menntamálaráðherra biður okkur að fara varlega, ég held að fleiri ættu nú að gera það. Við þessu var varað þegar málið var tekið með handafli frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd, sem hafði farið með það, og sett í hendur hv. atvinnuveganefndar. Menn létu þá eins og með því væri enginn tilgangur, að ekkert markmið væri þar undir liggjandi.

Réttilega er bent á að menn óttast greinilega mjög umræðuna, þegar þessi tillaga kemur fram, ef gefa á eina viku í hana. Er ætlunin kannski sú að reyna að keyra þetta mál í gegn fyrir jól? Mér er mjög til efs að það takist ef menn óttast umræðuna svo að þeir ætli að gefa eina viku til umsagna um grundvallarbreytingu á þeirri tillögu sem lá fyrir, sem byggðist á tillögu verkefnisstjórnar. Og hér á að ganga lengra en beðið var um í bréfinu til verkefnisstjórnarinnar.

Ég segi bara: Þá skulu fleiri í þessum sal fara varlega áður en þeir hafa stór orð uppi um það sem fram undan er. Hér er gjörsamlega gengið á svig við fagleg vinnubrögð (Forseti hringir.) og gjörsamlega gengið á svig við hugmyndafræði rammaáætlunar sem byggist einmitt á því að bera saman ólíka kosti. (Forseti hringir.) Og hvar stendur verndarflokkurinn á meðan, virðulegi forseti, hvað er verið að gera í honum? Ekki neitt.