145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:39]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir að það eru rök með og á móti. Það sem ég á samt erfitt með að skilja, sem hefur verið hér í orðræðunni í allan dag og í gær, að það séu engin rök fyrir frumvarpinu. Þau eru auðvitað heilmikil og sitt sýnist hverjum um þau. Alla jafna má þó segja að úr því að utanríkisráðuneytið er með þennan málaflokk að hluta til og sér um hann að miklu leyti, þ.e. þróunarsamvinnu, þar er sérstök deild, ein stærsta deildin innan ráðuneytisins, alla jafna mundu menn þá geta sagt að ákveðið hagræði væri í því að hafa það undir einum hatti.

Af því að menn hafa talað um faglega þáttinn, þá hefur ekki staðið annað til en að fagþekkingin sem er í Þróunarsamvinnustofnun verði í ráðuneytinu, þ.e. sama starfsfólkið verði þar. Ég hef því ekki áhyggjur af fagþættinum, það eru þó alla vega rök fyrir því að um hagræðingu sé að ræða, minni tvíverknaður, meira fáist fyrir peninginn. Svo geta menn auðvitað grunað að peningurinn verði notaður í eitthvað annað en þetta. Það geta verið einhverjar samsæriskenningar um það. En í prinsippinu ætti það að vera þannig að þarna yrði aukið hagræði, allt á einni hendi, auðveldara að móta stefnu og nýta peninginn o.s.frv. Þetta kalla ég alveg fín rök í sjálfu sér. En ég get auðvitað alveg skilið að menn séu ósammála því og vilji bara hafa þetta í sérstakri stofnun, það verði alltaf öflugra og faglegra út af fyrir sig. Það er allt í lagi, menn geta haft þá skoðun, en ég held að það sé ekki tilefnið til að eyða hér mörgum dögum í að ræða það og halda því alltaf fram að engin rök séu með frumvarpinu (Forseti hringir.) og endurtaka sömu ræðurnar aftur og aftur og sömu andsvörin aftur og aftur.