150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

stofnun dótturfélags RÚV.

[10:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Ríkisútvarpið hafi ekki stofnað dótturfélög um annan rekstur en fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu þrátt fyrir lagalega skyldu þar um. Það er áhugavert að skoða þetta því að það er einnig sagt að óþarft sé að stíga þetta skref þar sem aðskilnaður í bókhaldi félagsins eigi að nægja til þess að halda þessum þáttum starfseminnar aðgreindum þar sem lagaákvæðið gangi lengra en Evrópureglur mæla fyrir um og óvíst hvort sé einhver ávinningur af stofnun dótturfélags, það gæti jafnvel leitt til óhagræðis fyrir félagið. Gildistökunni hefur verið frestað tvívegis, síðast til ársbyrjunar 2018, og núna er uppi það vandamál að fresturinn er ekki lengri og ríkisendurskoðandi segir bara berum orðum og bendir á að ekki sé valkvætt að fara eftir lögum.

Þetta er dálítið áhugavert vandamál þar sem það er í rauninni verið að leggja aukabyrði á RÚV án þess að það sé nauðsyn á því. Þá erum við að velja að fara í rauninni illa með almannafé þegar allt kemur til alls. Mig langaði að leita álits ráðherra á því. Er ekki gott að laga þetta vandamál, að hætta að fara illa með almannafé, og skýra betur hvað þarf og þarf ekki að gera?

Svona rétt að lokum, risastórt mál, það þyrfti kannski bara stutt svar við þeirri spurningu en það er staða fjölmiðlamanna á einkamarkaði. Þar er ákveðið vandamál með mörk þess hvað sé sjálfboðavinna og hvað yfirvinna. Ef maður vísar aftur í Ríkisendurskoðun, að það sé ekki valkvætt að fara eftir lögum, þá eru ákveðin lög um hvaða laun maður fái fyrir vinnu sína o.s.frv. Það eru náttúrlega kjaradeilur í gangi sem við skiptum okkur ekkert sérstaklega mikið af, en þarna er ákveðið vandamál sem þarf tvímælalaust að huga að, jafnvel hérna inni, þegar (Forseti hringir.) það er ekki verið að fara eftir lögum um greiðslur á launum.