150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lyfjalög.

390. mál
[11:24]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau skýrðu málið. Það er alveg ljóst, eins og hæstv. ráðherra kemur inn á, að þetta er viðamikið mál og á án efa eftir að fá mikla umfjöllun og væri áhugavert að fá á fund nefndarinnar m.a. þá gesti sem sendu inn umsagnir og höfðu skoðanir á þessum hlutum. Þetta með fjárhagslegu og faglegu ábyrgðina: Ég man þá tíð að Landspítalinn vildi ekki hafa ákvörðun um þessi lyf hjá sér því að það væri vont að sitja uppi með hana þannig að við erum búin að fara í fjölmarga hringi með þetta mál og það segir kannski betur en margt annað hversu flókið það er.

Mig langar í seinni umferð að spyrja aðeins nánar út í fyrirkomulagið um að leggja niður lyfjagreiðslunefnd í núverandi mynd og skipta starfsfólki og verksviði annars vegar á þessa nýju lyfjanefnd Landspítalans og síðan á Lyfjastofnun. Án þess að hafa djúpa þekkingu á þessu les ég út úr þessu að greiðsluþátttökuhluti lyfjagreiðslunefndar, þ.e. sá hluti starfsemi nefndarinnar sem hingað til hefur falist í því að ákveða greiðsluþátttökuna, fari undir Lyfjastofnun sem á þá í sínum samskiptum við Sjúkratryggingar. En Lyfjastofnun er með eftirlitið líka þannig við erum að einhverju leyti komin með þjónustu og eftirlit undir sama hatt, eins og ég skil þetta. Það er verið að sækja um verð og greiðsluþátttöku núna hjá Lyfjastofnun miðað við þetta og það er sama stofnun og aðilar að kæra til ef þurfa þykir, þ.e. þetta er aðilinn sem leitað er til með kærumál. Þarna erum við þá komin með þetta tvennt á sömu hendi. Er þetta eitthvað sem hefur komið upp í umfjöllun? Mig langar aðeins að fá útskýrt hvernig þetta varð besta niðurstaðan.