150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[13:43]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu því að það er mjög brýnt að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga. Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á að endurskoða álagningu fasteignaskatta sem leggjast með auknum þunga á fólk og fyrirtækin í landinu. Breyting í þá átt að álagning fasteignaskatts taki fremur mið af landsvæðinu sem um er að ræða en þeim byggingum sem á því standa er eitthvað sem þyrfti að skoða þegar aðferð og álagningargrunnur fasteignaskatta yrði tekinn til gagngerrar endurskoðunar, sem ég tel vera nauðsynlega.

Herra forseti. Óhætt er að segja að fasteignaskattar hafi hækkað upp úr öllu valdi síðastliðin ár og langt umfram almennt verðlag í landinu. Fasteignaskattar hér á landi nema um 2% af landsframleiðslu á meðan hlutfallið er 1% í Svíþjóð sem hefur ekki verið talin nein skattaparadís. Í Reykjavík hafa fasteignaskattar hækkað yfir 60% á síðustu fjórum árum og svipaða sögu er að segja í mörgum öðrum sveitarfélögum. Hækkunin er slík að jafnvel þó að einhver sveitarfélög hafi lækkað álagningarprósentu fasteignagjalda er um raunhækkun að ræða ár eftir ár og þessir skattar eru að sliga margan viðkvæman fyrirtækjarekstur.

Við í Miðflokknum höfum talað fyrir því að minnka ríkisbáknið og komið með tillögur við fjárlagagerðina í þeim efnum. Þetta á líka við um annan opinberan rekstur. Á ég þar við rekstur sveitarfélaga en stjórnkerfi margra sveitarfélaga hefur á umliðnum árum bólgnað svo út að þau telja sig ekki geta lækkað þessa skatta og taka þannig sífellt til sín meira frá atvinnurekstri og almennum íbúum. Nei, herra forseti, koma þarf böndum á hömlulausa og stjórnlausa hækkun fasteignaskatta.