150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri.

186. mál
[15:06]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991 (afnám búsetuskilyrða), á þskj. 493, fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar. Eins og segir í stuttu nefndaráliti er með frumvarpinu brugðist við athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA um skilyrði um búsetu og heimilisfesti stjórnarmanna og framkvæmdastjóra í íslenskum atvinnufyrirtækjum. Áður hefur verið brugðist við sambærilegum athugasemdum með breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, samanber lög nr. 25/2017.

Nefndin hefur ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið en leggur til breytt orðalag til að auka skýrleika. Breytingartillögurnar hafa engin efnisleg áhrif en gerð er grein fyrir þeim í þingskjalinu.

Undir þetta álit skrifa hv. nefndarmenn Óli Björn Kárason, Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Smári McCarthy og Silja Dögg Gunnarsdóttir.