150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það eru sveitarfélögin sem innheimta skattinn, ég geri mér fulla grein fyrir því, en íbúarnir koma hins vegar til með að greiða hann. Það eru u.þ.b. 6.000 kr. á hverja fjölskyldu og þegar skatturinn er kominn að fullu til framkvæmda eru það 12.000 kr. Það er stanslaust verið að bæta í ýmis gjöld og svo státar ríkisstjórnin sig af því að lækka skatta.

Það sem ég vildi sagt hafa um málið er að það verður að hlusta á hagsmunaaðila, þeir eiga að innheimta skattinn. Fyrirtæki eiga að innheimta skattinn og þau hafa gefið þessari skattheimtu algjöra falleinkunn. Fyrirtæki á borð við Sorpu hafa gagnrýnt málið harðlega og kvartað yfir samráðsleysi. Þau segja að það sé augljóst að tilgangur hugmynda um þennan skatt sé ekki verndun umhverfis eða aukning í endurvinnslu og endurnotkun, tilgangurinn virðist ekki vera sá að minnka úrgang. Þetta kemur allt fram í umsögn Sorpu og það er ljóst að farið var í þessa vegferð án nokkurs undirbúnings. Það er mjög gagnrýnivert, frú forseti, hvernig haldið hefur verið á þessu máli og hringlað með það fram og til baka. (Forseti hringir.) Það er ljóst að þessi skattheimta verður að veruleika og ég tel ljóst að verið sé að leggja í vegferð sem kemur ekki til með að skila þeim árangri sem menn halda.