150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar en 1. minni hluti er fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni. 1. minni hluti hefur áður bent á, m.a. í nefndarálitum, að á árunum fyrir efnahagshrunið hafi ójöfnuður aukist hér á landi mikið og mun meira en annars staðar á Vesturlöndum en minnkað síðan í hruninu. Um þetta er m.a. fjallað í bókinni Ójöfnuður á Íslandi eftir Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson sem kom út haustið 2017. Þar kemur fram að um tveir þriðju hlutar aukins ójafnaðar fyrir hrun skýrist af miklum vexti fjármagnstekna í efri hluta tekjustigans. Stærsti hluti þess þriðjungs sem eftir stendur skýrist af breyttri stefnu stjórnvalda í skatta- og bótamálum. Eftir hrun snerist þetta algjörlega við því að þá skýrðist vaxandi jöfnuður að einum þriðja hluta af stefnu stjórnvalda í skatta- og bótamálum en að tveimur þriðju hlutum af minnkandi fjármagnstekjum. Nú hefur sú þróun sem varð fyrir efnahagshrunið hafist aftur og aðgerðir ríkisstjórnarinnar ýta undir vaxandi ójöfnuð, líkt og aðgerðir hinna tveggja ríkisstjórnanna sem starfað hafa eftir 2013.

Þetta má lesa úr svari hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við spurningum formanns Samfylkingarinnar um eignir og tekjur landsmanna árið 2018, það er 97. mál frá þessu þingi, því 150. Þar kemur m.a. fram að ríkasta 0,1% framteljenda átti 260,2 milljarða kr. í lok árs 2018, alls 238 fjölskyldur. Eigið fé þeirra jókst um 23,6 milljarða kr. á árinu 2018. Frá árinu 2010 hefur eigið fé ríkasta 0,1% landsmanna aukist um 98 milljarða kr., um 68%. Í svari hæstv. fjármálaráðherra kemur einnig fram að 5% ríkustu Íslendinganna, alls 11.900 fjölskyldur, hafi átt eigið fé upp á 1.864 milljarða kr. um síðustu áramót. Það er 218 milljörðum kr. meira en hópurinn átti í árslok 2017. Frá 2010 hefur milljörðunum í eigu þessa hóps fjölgað um 970. Ríkustu 5% áttu 40,8% af öllu eigin fé landsmanna í lok síðasta árs sem þýðir að hin 95% fjölskyldna í landinu áttu 59,2% þess.

Við mat þessara upplýsinga er rétt að hafa í huga að eigið fé ríkustu hópa landsmanna er stórlega vanmetið í svörum hæstv. ráðherra því að öll verðbréfaeign er metin á nafnvirði en ekki markaðsvirði.

Herra forseti. Stjórnvöld búa yfir stýritækjum sem geta í senn mildað og magnað ójöfnuð í skiptingu tekna og eigna í samfélaginu. Ríkisstjórnarflokkarnir kjósa að veikja þau stýritæki í stað þess að beita þeim með árangursríkum hætti til jöfnunar.

Miðstjórn ASÍ hefur bent á að rannsókn hagdeildar ASÍ á skattbyrði sýni að skattbyrði launafólks síðustu 20 árin hafi aukist og þeim mun meira eftir því sem tekjurnar eru lægri. Í ályktun miðstjórnarinnar um fjárlagafrumvarpið á fundi 18. september sl. sagði, með leyfi forseta:

„Miðstjórn ASÍ fagnar því að loks liggi fyrir nýjar tillögur stjórnvalda að breytingum á tekjuskattskerfinu sem beðið hefur verið með mikilli eftirvæntingu. Breytingarnar skila sér hins vegar of seint í vasa launafólks og stjórnvöld bregðast hlutverki sínu við að láta þá sem eru aflögufærir greiða réttlátan hlut til samfélagsins til að tryggja viðunandi fjármögnun velferðar og samfélagsinnviða.“

ASÍ hefur einnig með kröfum sínum um umbætur á tekjuskattskerfinu lagt ríka áherslu á að breytingarnar verði ekki nýttar til þess að lækka tekjur ríkissjóðs, draga úr getu hans til þess að standa undir velferðarþjónustu og nauðsynlegri uppbyggingu samfélagsinnviða og/eða auka áherslur á notendagjöld og nefskatta sem draga úr jöfnunaráhrifum skattkerfisins.

Fyrsti minni hluti tekur undir með ASÍ og gagnrýnir að tekjuskattskerfið, barnabætur og húsnæðisstuðningur séu ekki nýtt með markvissum hætti til jöfnunar. Sama má segja um fjármagnstekjuskatt sem er lægri hér en annars staðar á Norðurlöndum og stóreignaskatt til að vinna gegn eignaójöfnuði sem fer vaxandi hér á landi.

Margir búa enn við óviðunandi aðstæður á húsnæðismarkaði. Breytingar á húsnæðiskerfinu þurfa að hafa hagsmuni launafólks og heimila að leiðarljósi fremur en hagsmuni fjármagnseigenda. Húsnæðisstuðningur stjórnvalda er veikburða og ekki í samræmi við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Skattstefna stjórnvalda segir til um hvernig þau vilja búa að almenningi og hvernig stjórnvöld vilja sjá samfélagið þróast. Jöfnunarhlutverk skattkerfisins og áhrif þess á eignamyndun og tekjudreifingu eru ekki síður mikilvæg en tekjuöflunarhlutverk þess. Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty er sama sinnis og leggur til í metsölubók sinni sem kom út árið 2014 að komið verði á þrepaskiptum fjármagnsskatti til að auka jöfnuð í heiminum. Hann telur að skattkerfið sé langáhrifamesta tæki samfélagsins til að ná því markmiði að jafna kjör fólks.

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, birti í desember 2014 skýrslu þar sem vitnað er til rannsókna sem sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti. Þær rannsóknir og fleiri virtar rannsóknir sýna að meiri jöfnuður leiðir til sanngjarnari samfélaga og styrkir hagkerfi og hagsæld. Ef stjórnvöld vilja jafna leikinn hér á landi til að auka samfélagslegt traust þarf að beita bæði skatta- og bótakerfinu með kröftugum hætti.

Helsta niðurstaða skýrslu frá norrænu ráðherranefndinni sem kom út í apríl í fyrra er að vaxandi ójöfnuð á Norðurlöndum megi skýra með því að bætur hafi ekki hækkað í takt við laun undanfarin ár. Ef stjórnvöld vildu vinna að auknum jöfnuði ættu þau að taka á þessu og sjá til þess að velferðarþjónusta verði gjaldfrjáls eða í boði fyrir mjög vægt gjald. Skattkerfisbreytingar sem stuðla myndu að auknum jöfnuði hér á landi væru t.d. fleiri skattþrep sem tækju einnig til þeirra allra tekjuhæstu, þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur og stóreignaskattur á umtalsverðar eignir umfram íbúðarhúsnæði fólks ásamt auknu vægi barna- og húsnæðisbóta.

Breytingar síðustu ára á barna- og húsnæðisbótum, virðisaukaskatti og tekjuskatti ásamt afnámi auðlegðarskatts hafa allar haft neikvæð áhrif á jöfnuð hér á landi. Niðurstöður alþjóðlegra rannsókna sem sýna neikvæð áhrif ójafnaðar á samfélög ásamt íslenskum og erlendum greiningum sem sýna skýr áhrif tekjujöfnunaraðgerða ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur ættu að vera stjórnarmeirihlutanum næg rök fyrir því að hverfa frá stefnu ójafnaðar síðustu ára og til að forðast að róa aftur á mið vaxandi misskiptingar. Löngu tímabært er að endurskoða skattalöggjöfina. Þar verður bæði að líta til tekjuöflunarhlutverksins sem og tekjujöfnunarhlutverksins. Einstökum greinum hefur margoft verið breytt frá gildistöku laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og ákvæði til bráðabirgða eru margir tugir talsins.

Í 3. gr. frumvarpsins sem er hér til umfjöllunar er lagt til að bráðabirgðaákvæði vegna laga um tekjuskatt verði framlengt um tvö ár. Af því leiðir að fjárhæðarmörk milli skattþrepa og persónuafsláttur munu áfram miðast við vísitölu neysluverðs en ekki launavísitölu eins og réttlátara væri. Með samþykkt ákvæðisins verður innbyggð skattahækkun framlengd ef launavísitalan verður hærri árin 2019–2021 sem útlit er fyrir. 1. minni hluti telur að miða ætti við launavísitölu í þessum efnum í stað neysluvísitölu og að það sama ætti að gilda um breytingar á barna-, húsnæðis- og vaxtabótum.

Herra forseti. Barnabótakerfið hefur markvisst verið veikt undanfarin ár og þúsundir barnafjölskyldna hafa dottið út úr kerfinu. Í umsögn ASÍ kemur m.a. fram að skattbyrði para sem hafa tekjur við neðri fjórðungsmörk með tvö börn á framfæri sé nú rétt um 1 prósentustigi lægri en barnlausra para með sömu tekjur. Skattbyrði tekjuhærri para með og án barna er hin sama. Þetta sýnir að jöfnunarhlutverk barnabótakerfisins er ekki nýtt eins og best verður á kosið enda virðast tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fátæktarstyrk til barnafjölskyldna vera fyrirmynd ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í stað þess að líta til hinna norrænu ríkjanna um að barnabætur styðji stöðu barnafólks í samanburði við hina sem ekki eru með börn á framfæri.

Í umsögn ASÍ kemur fram að húsnæðisöryggi, viðráðanlegur húsnæðiskostnaður og jafnt aðgengi að húsnæðismarkaði hafi verið meðal helstu áherslna verkalýðshreyfingarinnar í viðræðum við stjórnvöld í aðdraganda kjarasamninga sl. vor. Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga er í frumvarpinu gert ráð fyrir að húsnæðisstuðningur fari lækkandi að raunvirði milli ára og í áætlunum er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Í heild hefur húsnæðisstuðningur í gegnum vaxtabótakerfið rýrnað að raungildi um meira en 70% frá árinu 2013 og heimilum sem fengu vaxtabætur fækkaði um 27.000 milli áranna 2013 og 2018. Þá hefur hámark bótafjárhæðanna verið nánast óbreytt frá árinu 2010. Þetta gerir það að verkum að kerfið styður við sífellt færri heimili. Tekjulágt barnafólk sem á lítið eigið fé í húsnæði sínu fær nú lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið. Lækkun vaxtabóta verður til þess að þurrka út ávinning lágtekjufólks sem á lítið eigið fé í sínu húsnæði af breytingum á tekjuskattskerfinu á árinu 2020 þannig að skattbyrði að teknu tilliti til tilfærslna eykst í reynd. ASÍ bendir einnig á að sé horft til þróunar á framlögum til vaxtabóta síðasta áratuginn má sjá að samhliða tilkomu almenna íbúðakerfisins og vexti stofnframlaga til byggingar hagkvæmra leiguíbúða fyrir tekjulága hafa framlög til vaxtabóta dregist saman um svipaða fjárhæð. Stofnframlögin hafa þannig ekki verið aukin framlög til húsnæðismála eins og þeim var ætlað, heldur í reynd greidd með lækkun á öðru stuðningsformi. Því ástandi á að viðhalda á árinu 2020 þrátt fyrir fögur fyrirheit ríkisstjórnarinnar sem reynast orðin tóm.

Herra forseti. Stjórnarmeirihlutinn leggur til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga hækki annað árið í röð umtalsvert minna en lægstu laun og kjör lífeyrisþega versna í samanburði við aðra hópa. Lagt er til að lífeyrir almannatrygginga hækki um 3,5% í upphafi ársins 2020 en lægstu laun hækka samkvæmt kjarasamningum um 5,7% á árinu 2020. Lágmarksframfærsla almannatrygginga fyrir einstakling sem býr einn verður því 321.687 kr. á árinu 2020 og hefur þá frá árinu 2018 hækkað úr 300.000 kr., þ.e. um 7,2%, á sama tíma og lægstu laun munu hafa hækkað um 11,7% og verða 335.000 kr. Fyrir einstakling sem býr með öðrum verður lágmarksframfærslutryggingin 256.000 kr. og hefur þá hækkað um 7,2% frá árinu 2018. 1. minni hluti telur með öllu óásættanlegt að kjör elli- og örorkulífeyrisþega skerðist samanborið við aðra. Sú eðlilega og réttmæta krafa að enginn verði undir lágmarkslaunum á Íslandi var felld við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins í gær. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og þeir þingmenn sem bera þá ríkisstjórn uppi vilja að öryrkjar sem ekki hafa valið sér hlutskipti sitt og löggjafinn sér um að ákveða á hvaða kjörum verða verði fátækastir allra á Íslandi. Meðal eldri borgara sem fá einvörðungu greiðslur frá Tryggingastofnun er hópur kvenna fjölmennur. Um 70% lífeyrisþega sem búa við lökustu kjörin eru konur sem voru í hlutastörfum eða heimavinnandi á árum áður. Meðal þeirra sem eru allra verst staddar eru konur af erlendum uppruna. Þessi hópur kvenna hefur unnið sér inn lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum og þær hafa mjög takmörkuð úrræði til að bæta kjör sín. Bil á milli þeirra fátæku og ríku breikkar vegna aðgerðaleysis stjórnvalda sem segja eitt í ræðum en ákveða annað með fjárlögum. Á sama tíma eru veiðigjöld lækkuð umtalsvert á stórútgerðir sem sannarlega líða engan skort. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er skýr og okkur í Samfylkingunni finnst hún óásættanleg. Þó getur 1. minni hluti tekið undir að lækka eigi tryggingagjaldið og tekur undir með meiri hlutanum að sú aðgerð styrki samkeppnishæfni atvinnulífsins.