151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

19. mál
[15:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Almennt vel tekið, segir hæstv. ráðherra, sem er vitanlega ekki rétt. Engin umsögn sem kom inn var jákvæð fyrir þessu og ég man ekki eftir nokkrum gesti nema frá yfirstjórn ráðuneytisins sem mælti með þessu frumvarpi. Það er ekki að vera almennt vel tekið. Ráðherra er að blekkja þingsalinn með slíkum orðum. Hins vegar er allt í lagi að segja frá því að það má alveg færa rök fyrir því að rétt sé að setja einhvers konar kvóta á fjölda sendiherra sem skipaður er utan þjónustunnar. En það er ekki gert með skynsamlegum hætti í þessu máli, því miður. Það er ekki gert að mínu viti. Það er villa, segi ég, villa, að takmarka sveigjanleika þjónustunnar eins og gert er með þessu máli eins og það er lagt fram. Nær væri, eins og segir í breytingartillögu sem ég flyt og Miðflokkurinn flytur, að fresta gildistökunni og fara í heildarendurskoðun á lögum um utanríkisþjónustu Íslands. Það er það sem við leggjum til, að fresta gildistökunni og fara í heildarendurskoðun. (Forseti hringir.) Við munum ekki greiða þessu máli atkvæði.