151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

20. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Það hefur ekki borist neitt frá Þjóðskrá Íslands þess efnis að vegna laga um kynrænt sjálfræði hafi orðið einhver kostnaðaraukning hjá Þjóðskrá og mér vitandi hafa ekki borist neinar fjárbeiðnir þar um og það liggur ekki fyrir nein kostnaðargreining með þessu frumvarpi svo að ég dreg þá ályktun að hér sé um mjög óverulegan kostnað að ræða og eitthvað sem rúmist innan daglegs verksvið þess sem Þjóðskrá er að sinna hverju sinni.

Já, það er rétt að gert er ráð fyrir því að ungmenni sem eru undir 18 ára aldri séu undanþegin þeim takmörkunum á breytingu á skráningu kyns og samhliða nafnabreytingu sem annars eru í lögum um kynrænt sjálfræði og geta þess vegna breytt kynskráningu sinni oftar, en almennt er gert ráð fyrir því að það sé einungis hægt að breyta þessari skráningu einu sinni nema sérstakar ástæður liggi til. Þannig að það er ekki fortakslaust fyrir þá sem eru undir 18 ára aldri að þeir geti aðeins gert þetta einu sinni. En þar er miðað við að það sé einungis einu sinni að jafnaði.