151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[18:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara yfir þetta. Fyrst varðandi Læknafélag Íslands. Ég fékk þær upplýsingar að þeir hefðu sent inn umsögn og það virðist þá bara rangt. Ég fékk reyndar þær upplýsingar frá fyrstu hendi, en við sjáum til, ég kannaði það sérstaklega af því að ég var svo hissa að sjá ekki umsögn frá þeim þannig að ég tók nú bara upp símann og kannaði það. En við sjáum hvað setur hvað það varðar, hvort það hafi orðið einhver mistök eða hvað. En ég óttast í þessu og ég kom aðeins inn á það, og það segja sérfræðingar vestan hafs, að þeir sem starfa við þessi mál veigri sér við að tjá sig um þessi mál vegna utanaðkomandi þrýstings. Maður veltir því fyrir sér hvort það geti verið niðurstaðan hér, að við fáum ekki umsagnir frá þeim sem tóku ekki þátt í þessari vinnu. Það er það sem ég er að velta fyrir mér. Það kemur frá virtu læknatímariti í Bandaríkjunum að þessi málaflokkur sé með þeim hætti að sérfræðingar þori bara almennt ekki að tjá sig um hann. Það var kannski kjarninn í mínum málflutningi í ræðunni áðan. Það er gott að heyra að þarna sé listi yfir þessa sérfræðinga, þeir unnu náttúrlega frumvarpið, en ég sakna fyrst og fremst umsagna frá þeim sem unnu ekki málið og koma kannski hlutlausir að því.