151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[19:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var í sjálfu sér ekki spurning að ég held í andsvari hv. þingmanns. En ég bara ítreka það sem ég sagði í ræðu minni, að fyrir okkur þingmenn sem koma að málinu núna í 2. umr., þá höfum við ekki aðgengi að þeirri nefnd sem hv. þingmaður vísar til að tveir læknar hafa verið í. Það kemur einn læknir fyrir nefndina, það kemur fram í nefndaráliti með breytingartillögunni, og sá læknir, Ragnar Grímur Bjarnason barnainnkirtlalæknir, var í hópnum eftir því sem ég best veit, en það breytir því ekki að aðgengi okkar almennu þingmannanna, sem ekki eigum sæti í hv. nefnd, er ekki að þeim upplýsingum eða sjónarmiðum sem þar voru til meðferðar. Það er ekkert, það engin umsögn, enginn texti. Eini textinn sem kemur fram í nefndarálitinu eru efasemdir um sérregluna, sem ég mun koma inn á í seinni ræðu minni, sem snýr annars vegar að of stuttri þvagrás og hins vegar að vaxtarfráviki á typpi, „micropenis“. Megináhersla virðist vera lögð á það að þessi sérákvæði, sem ég gef mér að læknirinn eða læknarnir hafi talað fyrir, verði felld út. Þá er ekkert eftir nema sjónarmið aktívistanna. Ég hræddur um að mikið vanti upp á að passað sé upp á börnin í þessu máli.