Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

staða viðkvæmra hópa og barna.

[11:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Nýleg könnu Vörðu, rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, veitir innsýn í skuggalegan veruleika margs fólks sem hefur þurft að glíma við þungar byrðar í heimsfaraldrinum. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að stórir hópar hafi það slæmt, bæði fjárhagslega og andlega, og miklu verr en fyrir einu ári síðan. Einstæðir foreldrar, lágtekjuhópar, innflytjendur og ungt barnafólk stendur verr að vígi en áður. Niðurstöðurnar gefa ekki bara mynd af stöðu fullorðins fólks heldur segja líka sögu af fjölda barna sem búa ekki við nægilega góð lífsskilyrði. Þúsundir barna líða efnislegan skort í okkar ríka landi, fá ekki nógu næringarríkan mat, ekki nauðsynlegan fatnað eða aðgengi að tómstundum. Ofan í allt þetta mælist verðbólga nú óvenjulega há og Seðlabanki Íslands hefur gripið til stýrivaxtahækkana um tvö prósentustig á skömmum tíma. Það er ljóst að þessi þróun mun koma miklu verr við viðkvæma hópa og það er hætt við að hækkandi afborganir húsnæðislána, hækkandi leiguverð, dýrari matarkarfa, geti sligað mörg heimili og fleiri börn þurfi að lifa efnislegan skort.

Í ljósi þessarar stöðu langar mig að spyrja hæstv. barnamálaráðherra hvaða aðgerðir hann sjái fyrir sér að ríkisstjórnin þurfi að grípa til til þess að verja stöðu þessa fólks og barna. Verður ríkisstjórnin einfaldlega ekki að skerast strax í leikinn með aðgerðum í þágu hópa í erfiðri stöðu og líta þá til þingsályktunartillagna sem Samfylkingin og aðrir stjórnarandstöðuflokkar lögðu hér fram í gær eða fyrradag?