Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

staða viðkvæmra hópa og barna.

[11:03]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Á margan hátt tek ég undir með hv. þingmanni um stöðu barna og barnafjölskyldna og þar þurfum við ávallt að gera betur. Það er engu að síður svo að í gegnum faraldurinn höfum við gert talsvert mikið þegar kemur að málefnum barna og barnafjölskyldna. Það hefur verið horft til þess í félagslegum aðgerðum, það hefur einnig verið horft til þess í gegnum atvinnuleysistryggingakerfið og í gegnum félagsmálaráðuneytið með sérstökum greiðslum til barnafjölskyldna. Í fyrsta skipti hefur ríkið stigið inn með sérstaka tómstundastyrki gagnvart börnum á tekjulágum heimilum sem var úrræði sem var tímabundið sett á í heimsfaraldrinum og svo mætti áfram telja. Þegar þessum faraldri slotar og við sjáum þau efnahagsáhrif sem fylgja í framhaldinu, þá er alveg ljóst að það þurfa að fylgja áframhaldandi aðgerðir. Ég kynnti m.a. í ríkisstjórn síðasta föstudag þá fyrirætlan mennta- og barnamálaráðuneytis að fara í sérstakan endurreisnarpakka gagnvart börnum og ungu fólki þegar heimsfaraldrinum slotar. Þær endurreisnaraðgerðir munu þurfa að vera á félagslegum grunni en líka á menntalegum grunni því það er alveg ljóst að þessi faraldur hefur haft áhrif og ég tek þar undir með hv. þingmanni. Við þurfum að halda utan um okkar viðkvæmustu borgara í ákveðinn tíma eftir að faraldrinum slotar. Ég hyggst eiga gott samstarf við alla helstu hagsmunaaðila (Forseti hringir.) við uppbyggingu á slíkum endurreisnarpakka. Það voru mjög góðar umræður um þetta (Forseti hringir.) í ríkisstjórn og ég veit að önnur ráðuneyti er að horfa á málin með sambærilegum hætti.