Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

raforkumál.

[12:25]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka aftur málshefjanda, hv. þm. Bergþóri Ólasyni, og þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari mikilvægu umræðu um mál sem við ræðum nú með einum eða öðrum hætti líka hér á eftir. Mér finnst umræðan vera að þróast á góðan veg hjá Alþingi og það er mjög mikilvægt. Mér finnst við vera að fara meira á dýptina, sem er gríðarlega mikilvægt í máli sem þessu. Bara svo það sé sagt, af því að hér sagði hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson að honum fyndist þessi umræða hafa verið svolítið ruglingsleg, ég held að hann hafi notað þau orð, þá er ég bara sammála hv. þingmanni. Þess vegna, eins og hann nefndi, er farið í þessa grænbókarvinnu. Grænbókin er hugsuð til þess að við höfum eins aðgengilegar upplýsingar og hægt er um það sem við erum að velta fyrir okkur og verðum að taka ákvarðanir um eins fljótt og mögulegt er, hvort heldur það er flutningskerfið, sem margir hv. þingmenn hafa hér verið að vísa til, eða hvað við þurfum mikla orku í orkuskiptin. Það er alveg rétt að það er ekkert sem bendir til annars en að það verði endalaus eftirspurn eftir grænni orku þannig að við þurfum alltaf að vera með stefnu og forgangsröðun. Hv. þm. Bergþór Ólason spurði sérstaklega út í það hvað orkumálastjóri átti við þegar hann var að tala um þessi mál, þ.e. að það þyrfti að forgangsraða fyrir heimilin. Það er einfaldlega þannig að það er markmið að sjá til þess að setja hring í kringum þau. Ef það væri alltaf hæstbjóðandi sem myndi kaupa orkuna þá er ólíklegt að það yrðu heimilin í landinu. Menn eru tilbúnir að borga mjög hátt verð og ýmsir aðilar borga mjög hátt verð fyrir orkuna og við viljum ekki sjá það að þessir hlutir standi þannig að þeir aðilar sem eiga að njóta orkuskiptanna fái ekki að njóta þeirra eins og við höfum fengið að gera fram til þessa.

Mér fannst hv. þm. Kári Gautason koma með ágætissamlíkingu þegar hann tók út verkefnið; sjö og hálfur lítri af olíu sem við erum að brenna, að ég held, á hverjum degi. Þetta er verkefnið. Við ætlum að fara úr þessu. Þetta er loftslagsverkefnið. Við verðum að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru. (Forseti hringir.) Við þurfum að líta til margra þátta og hér hefur verið vísað til mikilvægis og verðmætis víðerna, (Forseti hringir.) ósnortinna víðerna, það er einn þáttur. En það eru mjög margir þættir sem þarf að líta til og það er verkefni okkar, virðulegi forseti.