Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[13:46]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að fagna því að tillaga til þingsályktunar, um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sé komin fram á Alþingi, vonum seinna og í fjórða sinn, ef ég hef talið rétt, þriðji ramminn eins og við köllum hann yfirleitt. Það er rétt eins og hefur komið fram í máli þeirra þingmanna sem þegar hafa talað að hér hafa orðið margra ára tafir á því að afgreiða rammann og að halda því þannig af hálfu stjórnvalda og Alþingis að forsendur séu til að starfa eftir rammaáætluninni. Það er á ábyrgð Alþingis og auðvitað þeirra ríkisstjórna sem setið hafa hér síðastliðin átta eða níu ár að svo er. Ég get ekki annað en hugsað til umræðunnar sem við áttum hér aðeins fyrr í dag þar sem rætt var um orkuskipti m.a. og stöðuna í loftslagsmálum og að sjálfsögðu hafa þessi mál alltaf hangið saman. Að sjálfsögðu er það þannig að þú getur ekki talað á aðra höndina um virkjanir og hina um græna byltingu án þess að það eigi einhvern veginn rætur í aðgerðum stjórnvalda og ríkisstjórnarinnar. Það skiptir máli að ábyrgðin á þessum töfum og því óþoli og þeim eindaga sem hér hefur verið lýst vegna orkuskorts og einhvers annars, meints orkuskorts, er m.a. vegna þessarar málsmeðferðar, vegna þess að ríkisstjórnir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur hafa ekki haft þrek til að afgreiða þetta mál. Í sjálfu sér er málið ekkert flóknara pólitískt. Það er þannig.

Mér finnst að hér þurfi líka aðeins að rifja upp hvaðan þessi aðferðafræði er upprunnin. Það er þannig að þessi aðferðafræði verður til og sú hugmynd að búa til rammaáætlun þar sem við getum náð sem mestri pólitískri samstöðu um það hvernig við nýtum orkuauðlindir þessa lands og hvernig við verndum náttúruauðlindir þessa lands — þessi aðferðafræði og þessi hugmyndafræði á grunn sinn í stefnu Samfylkingarinnar sem nefnd var Fagra Ísland og lögð var til grundvallar í stjórnarsamstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks árin 2007–2009 og var svo haldið áfram í samstarfi Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á árunum 2009–2013. Það voru flokkarnir sem lögðu grunninn að þessari stefnu, að þessari aðferðafræði og að þessum ramma eins og við þekkjum hann.

Það skiptir mjög miklu máli að skilja að aðferðafræðin og vonin um að við gætum ástundað fagleg vinnubrögð sem sátt væri um og náð þannig niðurstöðu að hún væri skammlaus, þó öllum þætti hún kannski ekki viðunandi — þessi aðferðafræði á auðvitað rætur að rekja til þeirra miklu deilna sem hér voru um Kárahnjúkavirkjun og álverið sem henni tengist og þar á undan um Eyjabakka án þess að ég fari nú enn aftar í söguna. Við höfðum sem sagt stundað það hér í þessu landi að rífa hvert annað á hol næstum því yfir hverri einustu virkjunarframkvæmd í landinu. Því þurfti að linna og þess vegna skiptir þetta tæki máli. Þess vegna er þetta tæki sem hægt er að nýta og vinna með ef stjórnmálaflokkar, sérstaklega þeir sem hafa meirihlutastuðning til stjórnarsamstarfs á Alþingi, hafa pólitískt þrek til að nýta það.

Það var rekið hér áðan í ræðu hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar hvernig þau þraut örendið á síðasta kjörtímabili vegna þess að tekin voru saman í knippi ramminn, svokallaður hálendisþjóðgarður og þjóðgarðastofnun. Þar með varð ekkert úr neinu og þess vegna erum við í þessari stöðu í dag að vera að fjalla um sex ára gamla tillögu óbreytta. Um leið erum við með upplýsingar um það að næsta áætlun, sú fjórða og jafnvel sú fimmta — að önnur þeirra sé jafnvel tilbúin og hin í undirbúningi í ráðuneytinu. Því spyr ég eins og áður hefur verið spurt úr þessum stól: Er ekki ráð að nýta núna ferðina sex árum eftir að þessi tillaga varð til og setja allt á borðið sem þarf að vinna með? Væri það ekki ráð? Ég heiti því að í hv. umhverfis- og samgöngunefnd muni allir leggja sig fram um að fjalla um málið þó að það yrðu tvær áætlanir í viðbót.

Við erum einfaldlega stödd á þeim stað að við þurfum að fara að afgreiða þetta mál frá okkur. Við þurfum að hafa rammann þannig að hægt sé að vinna eftir honum og ekki vegna þess að sú sem hér stendur sé æst í að virkja alla kosti sem hér eru nefndir, þeir þurfa að sjálfsögðu að fara í gegnum sitt umhverfismat og sín leyfisferli eins og allir þekkja, heldur vegna þess að við verðum að geta hreyft þessi mál fram á við og það verður að vera einhver áætlun, sem þetta er auðvitað, sem bæði fyrirtækin í landinu geta unnið eftir og einnig þannig að það sé ljóst hvar við ætlum að friðlýsa og hvar nýting lands með náttúruvernd verður ofan á. Annars verðum við áfram í þessari óvissu sem því miður hefur einkennt þennan málaflokk í allt of mörg ár og getur af sér umræðu eins og þá sem fór fram hér fyrr í dag um orkuskort, um að það sé ekki hægt að virkja, um að enginn viti hvernig framtíðin verði vegna þess að ekki hafi verið afgreiddar áætlanir sem þurfa að liggja fyrir allra hluta vegna.

Og ekki bara rammaáætlun, 3., 4. og e.t.v. 5. áfangi, heldur líka löggjöfin er varðar raforkuöryggi í landinu, að innleiðingu þriðja orkupakkans sé lokið, að gætt sé að því að lagaumhverfi í landinu tryggi með öllum mögulegum hætti orku, raforkuöryggi til almennings og fyrirtækja og að stóriðjan sé að keppa á samkeppnismarkaði eins og hún á að gera. En til að allt þetta komi saman þurfum við í fyrsta lagi að vera fær um að hugsa um fleira en eitt í einu og við þurfum að ná utan um þetta verkefni. Það gerum við m.a. með því að taka þessa þingsályktunartillögu til ítarlegrar meðferðar í þingnefnd en einnig með því að kalla eftir upplýsingum frá hæstv. ráðherra um það hvað liggi á borðinu í ráðuneytinu og hvort það eigi ekki einnig erindi við okkur hér á hinu háa Alþingi við þessa umfjöllun.

Mig langar í lok þessa allt of stutta ræðutíma sem ég hef að nota tækifærið til spyrja hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um afdrif skýrslu starfshóps um nýtingu vindorku sem hann skilaði fyrir u.þ.b. ári. Nú kann að vera að það sé bara vegna þess að ég hafi ekki alveg verið að fylgjast með hér á þinginu, að þetta sé í ferli, en við sjáum öll að enn eru tveir vindorkukostir í áætluninni. Það er sem sagt einn í nýtingarflokki og annar í bið. Vindorkan er, eins og hér hefur komið fram, mjög mikilvægur kostur við raforkuöflun og hefur það með sér að hún er næstum algerlega afturkræf, það er að segja það sem þarf að setja upp til þess að nýta vindorkuna.

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvar það sé statt að kortleggja vindorkukosti og hvort þeir verði lagðir á borðið við umfjöllun um þessa áætlun í þinginu á þessu löggjafarþingi.