Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[14:13]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu þingsályktunartillaga um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Með þessari tillögu er lagt til í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða, en hér er á ferðinni svokölluð rammaáætlun. Samkvæmt áætluninni verði tryggt að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið verði tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Eins og segir í þingsályktunartillögunni skal í samræmi við markmið laga nr. 48/2011, lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið verndunar.

Rammaáætlun er mikilvægt verkfæri til að finna jafnvægi milli hagsmuna þeirra sem vilja skapa orku úr þeirri auðlind sem náttúra landsins býður upp á og þeirra sem vilja vernda óbyggð víðerni og vernda auðlindir í því formi sem þær eru. Rammaáætlun er ætlað að greiða úr ágreiningi og er jafnframt samheiti yfir ákveðin lög, ferli og aðferðafræði sem hafa þróast og samkomulag náðst um til að leysa þetta verkefni sem farsælastan hátt. En þrátt fyrir göfug markmið þessa verkfæris hefur ekki gengið nógu vel á liðnum árum að ná þeirri sátt sem við notum við mat á orkukostum og sáttin hefur aðeins verið í augsýn en ekki áþreifanleg. Það er því ánægjulegt að við séum þó á réttri leið og við séum loksins komin með 3. áfanga rammaáætlunar hér til umræðu og til afgreiðslu á Alþingi, vissulega ekki í fyrsta skipti sem okkur skapast tækifæri til úrbóta.

Þingflokkur Framsóknarflokksins setti fram fyrirvara við afgreiðslu málsins til Alþingis og ætla ég að gera grein fyrir þeim fyrirvara. Hann hljóðar svo:

„Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Rammaáætlun er mikilvægt verkfæri við mat á virkjunarkostum. Gagnrýni hefur verið uppi um málsmeðferð 3. áfanga rammaáætlunar um að mat faghópa 3 og 4 hafi ekki verið hluti af matsferlinu. Þingflokkur Framsóknar vill beina því til umhverfis- og samgöngunefndar að horfa einnig til niðurstöður faghópanna. Þá hefur aðferðafræði afmörkunar landsvæða sem fara í verndarflokk verið gagnrýnd sem og réttaráhrif samþykktar ályktunarinnar þ.e. að friðlýsing fylgi óhjákvæmilega í kjölfar þess að virkjunarkostur fari í verndarflokk óháð náttúruverndargildi. Þingflokkur Framsóknar leggur áherslu á að hraða þarf orkuskiptum á öllum sviðum. Í vinnu umhverfis- og samgöngunefndar með málið verði í ljósi framangreinds skoðað hvort fjölga megi virkjunarkostum í biðflokki og/eða breyta afmörkun virkjunarkosta í verndarflokki. Þá er lögð rík áhersla á að í kjölfar afgreiðslu þingsins verði lög nr. 48 frá 2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, endurskoðuð í ljósi reynslunnar af vinnslu 3. áfanga rammaáætlunar.“

Virðulegi forseti. Þá hef ég lokið að gera grein fyrir fyrirvara Framsóknar.

Umhverfis- og samgöngunefndar bíður mikilvægt verkefni að viðhalda þessu mikilvæga verkfæri sem rammaáætlun er. Núverandi rammaáætlun sem er í gildi var staðfest árið 2013 og við vitum að þessi tillaga er aðeins áningarstaður á leið okkar að næstu rammaáætlun sem er númer 4 og svo næst 5. Ég sit í umhverfis- og samgöngunefnd og þangað mun þetta mál koma til umfjöllunar. Ég vænti þess að nefndin muni fara af krafti í þetta verkefni því að ég tel mjög mikilvægt fyrir Alþingi að ná afgreiðslu þessarar tillögu með einhverjum hætti og stuðla samhliða að betri sátt um verkferlið til frambúðar.