Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[15:25]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er orðin mikil furða, eins og hv. þingmaður segir. Hrakfallasögu rammaáætlunar er kannski ekki hægt að skoða án þess að taka hana í samhengi við hrakfallasögu allra náttúruverndarmálanna sem voru fléttuð saman á síðasta kjörtímabili og ekkert varð úr fyrir vikið vegna þess að stjórnarflokkarnir náðu ekki saman um þau sín á milli, komu fyrir vikið með þau í bullandi ágreiningi inn til þingsins allt of seint. Nú hafa þau ákveðið að prófa hina leiðina sem er að ná ekki saman um neitt og koma með þau rosalega snemma til þingsins og sjá hvort við getum ekki bara að græjað þetta.

Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til rammaáætlunar? (BHar: Á … að ræða það?) Ja, ekki kemur það fram frá þingmönnum stjórnarflokkanna sem allir gera fyrirvara við þetta mál. Ekki er hægt að lesa það út úr stjórnarsáttmálanum sem talar um að stækka biðflokkinn en svo kemur tillagan með óbreyttum biðflokki til þingsins. Þegar við fáum ekki svör frá stjórnarliðum þá er eðlilegt að við veltum þessu fyrir okkur hér. Ég spurði t.d. fulltrúa Framsóknarflokksins, sem gerir fyrirvara um að færa kosti niður í biðflokk, hvaða kostir það væru. Þeir eru ekkert margir, það er hægt að benda á þá. Hvaða kosti? Er ekki eðlilegt að við vitum það við þinglega meðferð hvað það er sem um er að ræða? Hún gat ekki svarað því. Þingflokksformaður Vinstri grænna, flokksins sem gerði fyrirvara, en er samt flokkurinn sem lagði þetta fram óbreytt á síðasta kjörtímabili, fyrir ári, sagði í andsvari að hann stæði auðvitað með þessari tillögu óbreyttri ef svo færi. Um hvað snýst þá fyrirvarinn? (Forseti hringir.) Svo fáum við kannski að heyra hvað Sjálfstæðisflokknum finnst um þetta mál (Forseti hringir.) af því að þegar ég spurði hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson hvort þingflokkurinn hefði gert fyrirvara þá vísaði hann til samstarfsyfirlýsingarinnar og sagði að það væri í sjálfu sér almennur fyrirvari.