Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[16:07]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og fagna því að við getum verið sammála um mikilvægi þess að framtíðarkynslóðir fái að taka ákvarðanir um virkjanir og að það sé ekki okkar að ákveða allt fram í tímann hvað það varðar.

Hv. þingmaður kvartar yfir því að ég komi ekki með beinar tillögur við fyrri umræðu um þessa þingsályktunartillögu, um hvernig eigi að færa á milli. Þegar ég tala um að taka umræðuna í þessum sal á ég auðvitað við þjóðkjörið þing. Nú erum við að klára fyrri umræðu og ég hef svo sem ekki heyrt — ég þori ekki alveg að fara með það hvort það hafi farið fram hjá mér í einhverjum ræðum að einhverjir þingmenn hafi komið með slíkar tillögur eða rætt einhverja sérstaka kosti. Ég býst þá frekar við því að sú umræða muni eiga sér stað í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þegar farið verður yfir þessa tillögu. Eins og ég sagði áðan þá bara vona ég að við náum utan um málið í nefndinni og að við náum að afgreiða það út úr þessum sal. Fyrir mitt leyti væri ég tilbúin að fallast á einhverja málamiðlun sem fæli í sér stækkun biðflokks.

Ég fæ að nota tækifærið, fyrst ég á smátíma eftir, og spyr hv. þingmann: Er hv. þingmaður og þingflokkur Pírata sammála þessari þingsályktunartillögu? Myndi hv. þingmaður og allir þingmenn Pírata greiða henni atkvæði ef hún færi í gegn óbreytt? Eða munum við sjá einhverjar breytingartillögur frá þingflokki Pírata hvað þessa þingsályktunartillögu varðar?