153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

málefni hælisleitenda.

[10:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra byrjar á því að vera ósammála dómsmálaráðherra sínum og sjálfum sér. Það er greinilega búið að láta vinstri grænu svipuna ganga á baki hæstv. ráðherra — og þó, kannski er þetta bara það sem var að vænta eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins þar sem kom á daginn að stærsti flokkur landsins á Íslandi er þrátt fyrir allt krataflokkur eins og á hinum Norðurlöndunum. Hæstv. fjármálaráðherra fór hér með ýmsar fullyrðingar um vinnumarkaðinn á EES-svæðinu. Ég get nú ekki tekið undir þær allar þó að ég geti tekið undir það að opin ferð fólks á EES-svæðinu hafi að langmestu leyti gert okkur gagn. En hér er um að ræða grundvallarstefnubreytingu hvað það varðar og ríkisstjórnin virðist ekki vita hver afleiðingin verður rétt eins og hæstv. loftslagsráðherra veit ekki hver afleiðingin af loftslagssjóðnum, sem var lofað á ráðstefnu nýverið, verður. Menn vita ekki hverjar verða afleiðingarnar af viðbragðaleysi fram að þessu við skipulagðri glæpastarfsemi. (Forseti hringir.) Hæstv. dómsmálaráðherra kemur málinu ekki einu sinni út úr þingflokki Vinstri grænna. (Forseti hringir.) Útlendingamál hæstv. dómsmálaráðherra er í uppnámi. Og einkavæðing ríkiseigna (Forseti hringir.) — ég hef líklega ekki tíma til að fara út í það, hæstv. forseti.

(Forseti (BÁ): Það er rétt. Það er ekki tími til þess.)