153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

andleg heilsa íslenskra barna.

[10:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra má eiga það að hann hefur sett málefni barna á dagskrá. Það breytir því ekki að allar mælingar og rannsóknir benda í eina átt: andlegri heilsu íslenskra barna, sér í lagi stúlkna, fer hratt versnandi á vakt hæstv. barnamálaráðherra. Er hæstv. ráðherra ekki sammála því að nauðsynlegt sé að bregðast við með afgerandi hætti? Blasir ekki við að endurhugsa þurfi allan stuðning og forvarnir í geðheilbrigðismálum ásamt því að hraða innleiðingu farsældarlaganna og fjármagna þau? Niðurstöðurnar eru svo sláandi að þær ættu að mínu mati að leiða til stórátaks í geðrækt hjá ungu fólki og beina sjónum sérstaklega að unglingsstúlkum og ungum konum. Hvað segja þessar niðurstöður okkur um íslenskt samfélag og pólitíska forgangsröðun ríkisstjórnarinnar? Hæstv. ráðherra segir að vandinn liggi í samfélagsgerðinni. Hvernig vill hæstv. ráðherra taka á því og hvernig birtast ráð hans í fjárlagafrumvörpum næstu ára?