Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[12:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála því að mér finnst þetta mál draga það svo skýrt fram að reiknireglan undir veiðigjöld er gölluð. Alltaf held ég að það verði svo á meðan það eru stjórnmálamenn sem eru að reyna að finna út úr því hvernig hægt er að hafa veiðigjaldið í sátt við þá sem eiga að greiða það, að það verði alltaf eitthvert vesen. Það á sannarlega við um þessa reiknireglu eins og fleiri reiknireglur sem undir veiðigjöldin hafa verið. Mér finnst bara kjánalegt að þegar verið er að ákveða gjöld á þá sem nýta auðlindir þjóðarinnar þá séu einhverjir skatta- og fjármálalegir gjörningar undir sem útgerðarmennirnir geta svolítið stýrt sjálfir hvernig koma niður í sínu bókhaldi og hafa þá um leið áhrif á veiðigjöldin. Ég er þeirrar skoðunar að það eina og í raun einfaldasta sem hægt er að gera í þessum efnum ef við viljum fá fullt verð fyrir auðlindina okkar er að bjóða hana út; bjóða út kvótann, hluta á hverju ári. Við í Samfylkingunni höfum talað um 5% á ári og fá þá það verð sem markaðurinn er tilbúinn til að greiða. Þá um leið opnum við kerfið okkar, sem er alveg harðlæst og lokað, og fáum fullt verð fyrir auðlindina.