Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[12:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Að viðhafa vandaða lagasetningu er eitt af hlutverkum okkar sem löggjafarvalds og við sem erum eldri en tvævetur hér á þingi munum hverjar afleiðingar þess eru þegar flókinni lagasetningu er flýtt í gegnum þingið án þess að leikreglurnar séu virtar. Það er ástæða fyrir því að við gefum tvær vikur í umsagnarfrest, að við gefum nefndum nægan tíma til að funda um þingmál. Það er til þess að koma í veg fyrir mistök og til að tryggja réttaröryggi borgaranna.

Árið 2016 var samþykkt á Alþingi frumvarp félags- og jafnréttismálaráðherra um breytingar á lögum um almannatryggingar. Það fór ekki betur en svo að enginn kom auga á stór mistök í frumvarpinu, hvorki ráðherra, framsögumaður né nokkur á þingi. Mistökin fólust í orðalagi þess efnis að ekki skyldi skerða ellilífeyri almannatrygginga vegna lífeyrissjóðsgreiðslna. Það leiddi allt í einu til þess að risastór hópur lífeyrisþega átti rétt á miklu hærri bótum en hann var vanur að þiggja. Samt hélt ríkið áfram að greiða sömu bæturnar og áður og vonaði bara að enginn myndi fatta mistökin. Þegar ráðherra var svo bent á þau þá bað hann velferðarnefnd að drífa frumvarp í gegnum þingið til að laga mistökin og bað meira að segja um trúnað um efni frumvarpsins til að skapa ekki óvart lögmætar væntingar hjá þessum hópi. Ríkislögmaður skilaði velferðarnefnd trúnaðarbréfi sem mátti ekki sýna öðrum þingmönnum en staðreyndin er samt sú að lagasafnið er opið og þess vegna komst þetta nú allt upp frekar fljótt. Samt voru lögin keyrð í gegnum velferðarnefnd og þingið á mettíma með afturvirkri gildistöku til að laga mistökin. Píratar vöruðu við því að afturvirk skerðing réttinda sem þessi hópur hafði réttmætar væntingar til myndi skapa ríkinu bótaskyldu. Þeirri breytingartillögu var samt auðvitað hafnað. Landsréttur komst svo árið 2019 að þeirri niðurstöðu að Tryggingastofnun hefði verið óheimilt að skerða þessar bætur ellilífeyrisþega í janúar og febrúarmánuði árið 2017 og varð ríkið að greiða um 5 milljarða í bætur vegna þessara mistaka.

Þetta er dæmisaga, forseti, um það af hverju við eigum að vanda okkur við lagasetningu, taka okkur tíma og ekki setja okkur í þá stöðu að þurfa að laga mistök okkar eftir á. Það eru fjölmargar spurningar sem vakna við lestur þessa frumvarps sem fjallað er um núna. Tíminn frá framlagningu þangað til að veiðigjöld næsta árs verða ákveðin er mjög skammur og rétt að hafa áhyggjur af því hvaða afleiðingar það kann að hafa, ekki síst vegna þess að hér er um að ræða gjaldtöku vegna nýtingar á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Nú er ég mjög hlynnt því að veiðigjöld séu hækkuð en hér er ekki um að ræða neina raunverulega hækkun á veiðigjaldinu heldur, eins og hefur komið fram í umræðunni hér, snýst þetta um að draga úr sveiflum og dreifa greiðslum á jafnari hátt yfir einhver ár. Ég velti bara fyrir mér: Hvers vegna er verið að fara af stað í frekar áhættusama lagaleikfimi þegar ávinningurinn er svona óljós? Mig langar því að leggja áherslu á það við hv. atvinnuveganefnd að hún gefi málinu góðan gaum. Vonandi eru þetta óþarfa áhyggjur en við megum ekki afgreiða málið án þess að vera fullviss um allar afleiðingar þess. Við sem löggjafi berum ábyrgð á þeim lögum sem við samþykkjum hér út úr þessum þingsal. Vönduð lagasetning er á okkar ábyrgð.