Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[12:35]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir hennar stórkostlega flottu ræðu. Ég ætlaði nú ekki að koma upp í andsvar en ég finn mig algerlega knúna til þess, hún sagði sannleikann en mér fannst skorta pínulítið upp á hann, því maður er með pínulitla athyglissýki í þessum æðsta ræðustóli landsins. Jú, vönduð lagasetning, það er svo sannarlega það sem skiptir máli. Það er svo sannarlega rétt, sem hv. þingmaður segir, að til þess erum við og fastanefndirnar að senda út umsagnarbeiðnir og annað slíkt til þess að reyna að fá aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga til þess að við getum byggt sem besta löggjöf, skilvirkustu og öruggustu löggjöfina sem stendur af sér alla storma hvað varðar hugsanlegt ólögmæti. En það var Flokkur fólksins sem kom að dómsmálinu. Píratar komu auga á að það væri mikill galli í gangi þegar þetta heimildarákvæði féll niður í almannatryggingunum eldri borgara sem laut að því að skerða tekjur eldri borgara vegna lífeyristekna. Það voru 5 milljarðar sem Flokkur fólksins fékk út úr þessu dómsmáli fyrir hönd eldra fólks og með vöxtum og öðru slíku nálgast það hátt í 7 milljarða. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að löggjöfin var svo óvönduð að allir skömmuðust sín svona mikið fyrir hana að þetta hefur siglt frekar, finnst mér núna, neðan sjávar vegna þess að það sem fékkst út úr þessu lögbroti og mistökum starfsmannsins í velferðarráðuneytinu, eins starfsmanns, kostaði ríkissjóð meira en öll nýbyggingin hérna við Alþingishúsið, hvorki meira né minna. Ég spyr því hv. þingmann: Finnst henni ekki að þetta mál hafi farið frekar lágt miðað við hvað það er ofboðslega frábært og hver það var sem stóð að því?