Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[13:11]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég fari aftur til ársins 2018 þá var þessi breyting ekki tilviljun. Það vissi einhver einhvers staðar hvaða áhrif þetta myndi hafa. Það var einfaldlega ekki vakin athygli á því hér í þinginu. Svona hlutir gerast ekki tilviljanakennt. Það er auðvitað vandinn varðandi sjávarútvegsumræðuna, þessi upplifun að það séu ákveðnir aðilar bakdyramegin að stýra þessum gjaldsetningum. En varðandi þetta mál núna þá setjum við í Samfylkingunni okkur ekki upp á móti því. Staðreyndin er sú að við viljum fá fjármagn inn í kassann og ég hef áhyggjur af því, vegna þess að ég veit hvernig svona fyrningarleið getur átt sér stað, að ef við fáum þetta ekki núna þá skili fjármagnið sér ekkert endilega síðar á kjörtímabilinu eða út líftíma skipanna, m.a. af þeim ástæðum sem ég nefndi hér áðan, að það er hægt að fara aðrar leiðir til þess að draga úr gjaldtöku síðar meir. Ég er reyndar ekki á þeirri skoðun að þetta muni engin áhrif hafa. Þetta gæti mögulega leitt til þess að bæði fáum við þetta nær í tíma og komum í veg fyrir tekjutap síðar meir þó að tæknilega séð ætti það ekki að vera þannig vegna þess að það er þekkt fyrirbrigði að hægt sé að fyrna snemma og fá mikið inn og halda því síðan áfram síðar meir. Ég held samt að vandamálin sem eru komin hér upp séu líka bara pólitísk eðlis. Hæstv. ríkisstjórn áttaði sig á því að hún var að fara inn í næsta ár með mjög lágt veiðigjald eftir mjög erfitt ár í efnahagnum og methagnað í sjávarútvegi og það var ekki vilji til að fara í skattlagningu sem til að mynda hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins töluðu fyrir á sínum tíma til að vega upp skellinn sem lendir á almenningi. Það hefði verið pólitískt mjög erfitt fyrir þessa ríkisstjórn að horfast í augu við það að fá litlar tekjur frá sjávarútvegi þegar það er 9% verðbólga, 6% vextir og kaupmáttarskerðing. Þess vegna stöndum við hér í dag.