Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

68. mál
[14:15]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, um skerðingarlausa atvinnuþátttöku öryrkja. Flutningsmenn með mér á frumvarpinu eru hv þm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson, sem sagt gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins, en það skal tekið fram að öllum þingmönnum var boðið að vera með okkur á þessu frumvarpi.

I. kafli hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.

1. gr.

Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tilraun til starfa.

Örorkulífeyrisþega er heimilt að afla sér atvinnutekna í tvö ár án þess að þær skerði örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstaka uppbót á lífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Réttur til að starfa án skerðinga vegna atvinnutekna stofnast við tilkynningu örorkulífeyrisþega til Tryggingastofnunar um að hann hyggist nýta þá heimild eða á síðari dagsetningu sem örorkulífeyrisþegi tilgreinir sérstaklega í tilkynningu sinni. Um tilkynningu fer skv. 52. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að skerða bótagreiðslur séu heildartekjur öryrkja hærri en meðallaun í viðkomandi starfsstétt samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Notast skal við nýjustu upplýsingar hverju sinni. Skal þá skerða þær greiðslur almannatrygginga sem örorkulífeyrisþegi á rétt á án tillits til atvinnutekna um 50% þeirrar fjárhæðar sem nemur mismun á heildartekjum örorkulífeyrisþega og meðallauna í viðkomandi starfsstétt. Skerðing samkvæmt ákvæðinu er heimil þrátt fyrir ákvæði b-liðar 2. mgr. 16. gr. og 4. mgr. 22. gr.

Óheimilt er að afturkalla útgefið örorkumat á grundvelli starfsgetu örorkulífeyrisþega á því tímabili þegar hann nýtir sér heimild til að afla sér atvinnutekna án skerðinga skv. 1. mgr. Við endurmat örorku skal ekki litið til starfsgetu örorkulífeyrisþega á tímabilinu.

Hafi umsækjandi áður nýtt sér heimild til að afla atvinnutekna án skerðinga getur hann sótt aftur um þá heimild átta árum eftir að tveggja ára tímabili skv. 1. mgr. lauk.“

Í II. kafla frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.

2. gr.

Á eftir 3. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. skal ekki telja til tekna atvinnutekjur lífeyrisþega undir meðaltekjum í viðkomandi starfsstétt samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands á því tímabili þegar hann nýtir sér úrræði 1. mgr. 22. gr. a laga um almannatryggingar. Notast skal við nýjustu upplýsingar hverju sinni.

3. gr.

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta: „Frumvarpið var áður lagt fram á 150., 151. og 152. löggjafarþingi.“ Sem sagt: Hér stend ég og mæli fyrir þessu réttlætismáli í fjórða sinn.

Á fyrri þingum bárust umsagnir um málið frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp. Umsagnaraðilar lýstu almennt yfir ánægju með frumvarpið og legg ég það hér með fram að nýju óbreytt. Við vitum það öll að ákvæði gildandi laga um almannatryggingar eru torskilin og gjarnan reynist erfitt fyrir hinn almenna borgara að átta sig á framkvæmd laganna. Þeir öryrkjar sem fá greiðslu örorkulífeyris skv. 18. gr. laganna vita þó að þeir mega búast við ýmiss konar skerðingum, afli þeir sér atvinnutekna. Þá er örorkumat gjarnan veitt tímabundið og margir óttast skerðingu bóta ef heilsu þeirra hrakar eftir að þeir hefja vinnu. Öryrkjar eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af framtíðarhorfum sínum ef þeir gera tilraun til að hefja atvinnu á ný. Þvert á móti ættu þeir að eiga von á betri lífskjörum. Því er lagt til að öryrkjum verði veitt sérstök heimild sem þeir geti nýtt sér þegar þeir vilja reyna að hefja störf á ný og auka starfsgetu sína. Fari svo að sú tilraun heppnist ekki þarf öryrki ekki að óttast að frekari skerðingar lífeyrisgreiðslna eða endurmat örorku á grundvelli þeirrar tilraunar komi til framkvæmda.

Svipað úrræði skilaði góðum árangri í Svíþjóð. Ég ætla í rauninni að bregða mér af bæ frá þessum blaðabunka vegna þess að ég er ekki ofboðslega góð í þessu en slengja hjartanu mínu hérna á ræðustólinn.

Í fyrsta lagi: Hvernig ríkisstjórn er það sem í rauninni, leynt og ljóst og vísvitandi, gerir allt til að þeir sem eiga erfiðast og eru fátækastir í samfélaginu geti ekki reynt að hjálpa sér sjálfir heldur sé hreinlega refsað fyrir það? Það er ekki nóg með að búið sé að múra þessa einstaklinga inn í svo rammgerðri fátæktargildru að þeir ná engan veginn endum saman heldur er þeim ekki gefinn kostur á að taka einn einasta múrstein í burtu til að reyna að komast út til sjálfshjálpar. Þeim sem hafa reynt að vinna hingað til á þessu handónýta kerfi almannatrygginga, eins og við í Flokki fólksins segjum algerlega kinnroðalaust að það sé, er ekki bara refsað með alls konar skerðingum og niðurrifi heldur geta þau ekki snúið til baka inn á kerfið nema til að vera númer — ég veit ekki hvað mörg þúsund í röðinni eftir úrlausn sinna mála og þurfa þá að sækja um allt heila klabbið alveg upp á nýtt.

Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að við séum í rauninni að gera allt sem við getum. Við gefum öryrkjum tveggja ára aðlögunartíma til þess að fara út að vinna án skerðinga, reyna að hjálpa þeim til sjálfshjálpar, virkja mannauðinn eins og við mögulega getum, leyfa þeim að taka þátt í samfélaginu, þau borga alla skatta og skyldur af sínum tekjum, eðli málsins samkvæmt. Það er ekki eins og frumvarpið sé algjörlega skilyrðislaust að gera þau að einhverjum ríkum einstaklingum, eins og sumir hafa viljað halda fram, að við séum í rauninni að mismuna fólki með því að ætla að leyfa sumum að vinna án skerðinga á meðan aðrir geta það ekki. Þetta er í rauninni stórkostlegur ávinningur fyrir samfélagið í heild.

Þegar ég var að vísa til Svíþjóðar vorum við einmitt með gögn og skýrslur frá Svíþjóð sem við byggjum þetta frumvarp á. Hver þekkir það ekki að það er verið að bera okkur saman við löndin í kringum okkur? Bera okkur saman við hina og þessa af því að þeir eru svo frábærir og ef þeir hafa sýnt það í rauninni með reynslu á einhverjum sviðum þá hefur það gjarnan verið haft í hávegum hér að við ættum kannski að reyna að feta í þeirra spor, af því að hlutirnir hafi gengið vel hjá þeim þá væri engin ástæða til að ætla að það gæti ekki gerst einnig hjá okkur á Íslandi.

Í þessu tilviki var náttúrlega uppi sama staða og er búin að vera hér. Það var mikið nýgengi örorku, gríðarlega stór hluti af fjárheimildum ríkissjóðs fór í það að standa undir skuldbindingum gagnvart því kerfi sem þurfti að hjálpa öryrkjum. Þetta hvatakerfi sem þeir komu á — ég held að það hafi nú ekki verið tvö ár, þeir voru með 15 mánuði, minnir mig frekar en 16, í aðlöguninni sinni og gott ef ég er ekki að gera þeim aðeins hærra undir höfði, ég er ekki með það alveg í kollinum en tel mig ekki skjóta yfir markið. En það breytir ekki þeirri staðreynd að bara með þessari aðlögun þá skiluðu ríflega 30% öryrkjanna sér ekki aftur inn í almannatryggingakerfið. Hugsið ykkur ef við værum það vel sett að 20% af okkar öryrkjum myndu reyna að nýta sér þetta og fengju tækifæri til að reyna fyrir sér og athuga: Er ég orðinn nógu öflugur? Hugurinn er sterkur og mig langar, og ég veit ég get og ég ætla og allt þetta. Því miður er það oft að hugurinn fer með okkur lengra en kannski raunveruleg geta er fyrir af því að við erum ofboðslega viljug til að gera góða hluti. Við erum viljug til að berjast, við viljum ekki vera einhvers staðar að hokra. Ef við getum mögulega hjálpað okkur sjálf þá bara viljum við gera það. En ef 20% okkar, t.d. öryrkja, myndu reyna að fara út á markaðinn og 32% skiluðu sér ekki aftur inn, ef við gætum reiknað með því að það væri eitthvað sambærilegt og þeir sáu fram á í Svíþjóð, hugsið ykkur ábatann fyrir samfélagið. Hugsið ykkur lýðheilsuna fyrir einstaklinginn sem er kominn út í samfélagið og búinn að brjóta af sér hlekki. Við verðum að fara að rjúfa þetta og stíga út fyrir boxið. Við verðum að fara að gera eitthvað annað en að hökta og skjökta alltaf í sama farinu.

Um daginn var einmitt hv. þm. Óli Björn Kárason, sem er nú ekki hérna núna, enda er ég alls ekki að tala illa um hann, nákvæmlega að tala um frumvarp Flokks fólksins að einhverju leyti með því að segja að þetta væru náttúrlega hlutir sem við yrðum að taka alvarlega til skoðunar og honum hugnaðist vel og það ætti að leyfa fólki að hjálpa sér sjálft ef þess væri nokkur kostur. Eins og er með svokallað frítekjumark má öryrki vinna fyrir 109.000 kr. á mánuði. Þetta er sama upphæð og hann hefur haft heimild til að vinna sér inn án skerðinga síðan eftir hrun. Hin norræna velferðarstjórn kom á öllum þessum skerðingum, krónu á móti krónu, festi þetta frítekjumark inn í 109.000 kr. Nú er króna á móti krónu orðin 65 aurar á móti krónu en það hefur ekki verið hróflað við neinu í þessum frítekjumörkum, það er enn þá 109.000 kr. á mánuði. Það er í rauninni galið, virðulegi forseti, þegar maður lítur til þess hvað mikið hefur breyst í efnahagskerfinu okkar frá því 2010. Það er þessi þjóðfélagshópur öryrkja sem hefur gjörsamlega verið skilinn eftir ásamt 6.000 eldri borgurum sem ekkert hafa annað að reiða sig á en almannatryggingar.

Þannig að ég segi: Nú ættu öryrkjar geta unnið sér inn fyrir svona um 240.000–250.000 kr. ef sýnt hefði verið það sem allir aðrir í þjóðfélaginu hafa fengið, að tengja þetta frítekjumark við t.d. almenna launaþróun í landinu. Ég veit ekki betur en að alþingismenn og nánast allir aðrir í samfélaginu, allar launastéttir og æðstu embættismenn, og allt hvað eina, séu búin að fá leiðréttingu sinna skerðinga eftir hrunið nema almannatryggingaþegar. Þeir sem helst hefðu átt að fá leiðréttingu og fyrstir hefðu átt að fá leiðréttingu eru einir skildir eftir. Það frumvarp sem ég er að mæla fyrir hér í dag er eingöngu til þess að reyna að hvetja þessa einstaklinga til sjálfshjálpar, hvetja þá út á vinnumarkaðinn, í rauninni verðlauna þá fyrir baráttuþrek sitt og taka á móti þeim opnum örmum. Það er það sem þetta frumvarp er að gera, ekkert annað.

Þannig að ég verð svo gjörsamlega steinhissa ef ég þarf að mæla fyrir frumvarpinu í fimmta sinn sem við munum líklega gera á næsta þingvetri ef málið nær ekki fram að ganga núna. Öldurnar hérna í þinginu eru oft frekar hægar, ég verð að segja það. Það virðist þurfa að tala um hlutina í ansi mörg ár áður en þeir síast almennilega inn og kannski kominn áhugi á að virkilega líta á málið og skoða það með opnum huga. Ég hef heyrt það á ýmsum stjórnarliðum og almennt að þingmenn og stjórnarliðar eru farnir að átta sig á því að þetta gæti hugsanlega verið hið allra besta mál og mikið hagsmunamál fyrir samfélagið í heild sinni.

Þess vegna segi ég: Ef það eru einhverjir sem við eigum að hjálpa til sjálfshjálpar og sérstaklega að virða vilja þeirra til þess að hjálpa sér sjálfir, þá er það fólkið sem þarf að reiða sig á framfærslu almannatrygginga og er í rauninni haldið þar í sárri fátækt. Ég er pínulítið vonbetri núna um framgang málsins en ég hef verið til þessa. Hins vegar eru engir þingmenn í salnum nema þingmenn Flokks fólksins og virðulegur forseti, sem brosir fallega til mín og er í VG þar sem ráðherra málaflokksins er, þannig að það verður virkilega áhugavert að sjá hvernig málinu reiðir af í fastanefnd. Ég vísa málinu til hv. velferðarnefndar og ég veit að hún mun vinna það vel. En væri það ekki yndislegt ef við gætum sýnt það í verki að okkur er ekki sama og við erum virkilega að vinna fyrir fólkið okkar sem þarf mest á hjálp okkar að halda? Væri það ekki fallegt núna í lok þings ef við gætum gert það?

Það virðist ekki vera vandi að fleyta hér málum í gegn á methraða. Núna er í rauninni ömurlegur tími fram undan fyrir þá sem eru fjárhagslega verst staddir. Ég get aldrei fengið nóg af því að segja ykkur það bara beinustu leið héðan hvað í rauninni það er fyrirkvíðanlegt og erfitt að horfa á börnin sín og geta ekki veitt þeim nokkurn skapaðan hræranlegan hlut þegar það eru að koma jól. Flokkur fólksins er búinn að mæla fyrir breytingartillögu um 60.000 kr. eingreiðslu í desember, viðbót við þann litla jólabónus sem almannatryggingar hafa þegar samkvæmt dagskrá. Ég er ekki heldur búin að gefa upp alla von hvað það varðar. Það mun kosta ríkissjóð 1 milljarð og 650 millj. kr. að veita þessa greiðslu til öryrkja og þeirra sex þúsund eldri borgara sem hafa ekki neitt að reiða sig á annað en berstrípaða framfærslu almannatrygginga sem er í rauninni eins og allir vita langt frá því að geta framfleytt nokkurri einustu manneskju svo sómi sé að.

Ég verð að viðurkenna að ég er alltaf jafn hissa þegar ég kem hingað upp og mæli fyrir hverju hagsmunamálinu á fætur öðru fyrir þennan þjóðfélagshóp þar sem við erum virkilega að biðja um hjálp og sýna með alls konar — við erum búin að leggja í gríðarlega vinnu. Við lögðum fram 70 þingmannamál á þingsetningardeginum og stærsti hlutinn af þeim er til þess að vera talsmenn þeirra sem við erum að berjast fyrir sem eiga bágast í samfélaginu og málleysingjana okkar líka. Þannig að ég skil ekki, þetta veitir mér bara sorg og depurð, að við skulum ítrekað vera að mæla fyrir réttlætismálum og sanngirnismálum sem okkur er í lófa lagið, eða a.m.k. stjórnvöldum hér, að framfylgja. Það þarf ekki að vera þannig að vaxandi biðlistar séu í alla þjónustu og sífellt lengri raðir fyrir utan hjálparstofnanir að bíða eftir mat.

Við verðum að átta okkur á því að það er mannanna verk hvernig komið er fyrir fólkinu sem bágast á í samfélaginu. Það ræður engu um sína stöðu þar en það gera hins vegar íslensk stjórnvöld. Það gerir ríkisstjórn Íslands undir forystu Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs þannig að nú skulum við sjá hverju fram vindur, virðulegi forseti, krossa fingur og vona það besta. Við skulum vona að allt í einu kvikni bara öll ljós hjá ríkisstjórninni og allir verði heima og taki virkilega fallega utan um þetta mál sem og svo mörg önnur sem Flokkur fólksins mælir hér fyrir í þessum æðsta ræðustól landsins og berst fyrir af öllu sínu hjarta.