Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

68. mál
[14:36]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga um skerðingarlausa atvinnuþátttöku öryrkja í tvö ár. Í því samhengi verðum við að átta okkur á því að að vísu hafa öryrkjar ákveðið frítekjumark, 109.500 kr. af tekjum sem þeir afla, en það ætti að vera um 250.000 kr. ef búið væri að uppreikna það eins og vísitölu launa. En því miður verður að segjast eins og er að ef þeir fara yfir frítekjumarkið er aukin skattbyrði á hverja krónu eftir það frá 70% og upp undir 100% sem er bara hrein og klár eignaupptaka. Að ætlast til þess að einhver leggi sig fram og reyni að vinna með þannig skattprósentu er auðvitað alveg fáránlegt vegna þess að það segir sig sjálft að ef maður fær ekkert fyrir sína vinnu og tapar jafnvel vegna kostnaðar við að sækja vinnu fer maður ekki af stað.

Síðan skerðast allir flokkar sem eru skattskyldir og einnig skerðast önnur réttindi öryrkja í almannatryggingakerfinu í núverandi bútasaumskerfi við það eitt að fólk reyni að vinna en í gegnum tíðina hefur verið reynt að koma á starfsgetukerfi, tilraun til að endurskoða almannatryggingakerfið, og við vitum að það tekur mjög langan tíma hjá þessari ríkisstjórn og það verða margar hindranir í veginum við að koma því kerfi í gegn. Því er þetta frumvarp mjög gott til að gefa þeim öryrkjum sem geta unnið og vilja vinna tækifæri til að gera það á eigin forsendum án þess að ríkið sé að anda ofan í hálsmálið á þeim og segja þeim hvað þeir eigi að gera, hvaða vinnu þeir geti unnið og hvernig. Þarna er verið að gefa þeim öryrkjum sem vilja vinna og geta unnið tækifæri til að finna sér vinnu sem þeir vita að þeir geta unnið og til að sjá hvað þeir eru færir um að gera á eigin forsendum án þess að eiga á hættu, eins og kerfið er í dag, að fá ekkert fyrir sinn snúð við að reyna að vinna. Í öðru lagi geta þeir þegar þeir koma út á vinnumarkaðinn og ráða ekki við vinnuna farið aftur inn í almannatryggingakerfið sjálfkrafa og þá án allra hindrana eða erfiðleika við að komast aftur inn.

Kerfið er ótrúlega ósveigjanlegt við að hleypa fólki inn aftur eins og það er uppbyggt í dag. Tökum sem dæmi einstakling sem hefur lent í örorku um fertugt og er örorkubótaþegi. Við verðum að átta okkur á því að viðkomandi er alltaf á bótunum, ríkið þarf að borga viðkomandi sínar bætur mánaðarlega. Það er því svolítið furðulegt að ef þessi einstaklingur ætlar að reyna að vinna skuli ríkið leyfa sér að refsa fyrir svoleiðis tilraun. Það segir sig sjálft að um leið og viðkomandi vinnur, hversu lítið sem það er, skilar hann alltaf skatti til baka. Það hlýtur að vera jákvætt. Þess vegna hef ég aldrei skilið, og mun aldrei getað skilið, kerfi sem letur fólk og reynir að koma í veg fyrir að það vinni á þeim forsendum að það sé á bótum og ríkið borgi því. Þá þarf ríkið hvort sem er að borga áfram, hvort sem fólk er að reyna að vinna eða ekki. En um leið og það reynir að vinna þá fer það að skila einhverju til samfélagsins. Mest munar þó um það hve miklu þetta skilar til þeirra sem geta þetta. Það segir sig sjálft að það er enginn þarna úti sem vill ekki vinna heldur getur viðkomandi ekki unnið og fær engu um það ráðið hversu mikið hann getur nýtt sína orku. Eftir að maður er kominn upp fyrir frítekjumarkið er 70% skattur að lágmarki, af hverjum 100.000 kr. þarf viðkomandi öryrki, eftir að frítekjumarki er náð, að skila 70.000 kr. í skatt til baka. Hann fær að halda 30.000 kr. Ef við setjum þetta í samhengi er hátekjuskattur í dag um 47%. Hátekjumaður í sömu stöðu fengi halda eftir 54.000 kr., öryrki 30.000 að hámarki, jafnvel minna. Ef við sjáum sanngirni í svona er það bara stórfurðulegt vegna þess að þetta getur ekki verið sanngjarnt á einn eða neinn hátt.

Segjum að einstaklingur sem hefur verið í ákveðinni starfsstétt en getur ekki unnið sína vinnu tímabundið ákveði að leita sér vinnu eftir að hafa verið á örorku einhvern tíma, þannig að við erum að reyna að búa til kerfi sem er ekki mannfjandsamlegt eins og gömlu kerfin, kerfi sem væri mjög gott sem millistig meðan verið er að reyna að koma á mannsæmandi endurhæfingarkerfi fyrir öryrkja þar sem þeir hafa val um það hvort þeir fari í nám eða vinnu á eigin forsendum. Allt á þeirra forsendum, ekkert unnið án þeirra. Fyrsta skrefið í þessu öllu saman er hvort vinna sé til fyrir viðkomandi. Þess vegna er mjög þægilegt og gott að hafa þetta frumvarp og vonandi verður það samþykkt. Þá hafa öryrkjar tvö ár til að ákveða sig, reyna að finna vinnu og vonandi skilar það þeim árangri að þeir sem vilja geta unnið.

Virðulegur forseti. Kerfi almannatrygginga sem við höfum byggt upp er, eins og ég hef margoft bent á, skrímsli, bútasaumaskrímsli sem virðist ekki koma að gagni lengur nema til þess að valda úlfúð og skerðingum. Það furðulegasta við kerfið er að það er svo mannvonskulegt að ef króna er sett einhvers staðar inn í kerfið veldur það keðjuverkandi skerðingum um allt kerfið og í mörgum tilfellum þannig að viðkomandi stendur verr eftir. Ég hef aldrei skilið þau lög sem setja á einstaklinga svo ótrúlega þvingaðan skatt og skerðingar að það kemur í veg fyrir að þeir reyni að vinna. Það er eiginlega með ólíkindum að við skulum vera búin að byggja upp þannig kerfi. Á sama tíma eru, eins og þið þarna úti sem eruð að reyna að vinna þrátt fyrir skert líkamlegt atgervi, öryrkjar sem vilja vinna — það er merkilegt í því samhengi að um leið og þeir reyna að vinna þá hafa þeir frítekjumark upp á 109.000 kr. sem hefur verið óbreytt í fjölda ára, frítekjumark sem á að vera 250.000 kr. í dag, eins og ég sagði áður. Ég spyr: Mun einhver treysta sér til að vinna ef hann veit að þær tekjur sem koma inn eru skertar og skattaðar upp undir 70%–90% eða jafnvel meira? Ég held að svarið sé nei, það er algerlega galið. Við erum með hátekjuskatt á þá sem fá virkilega há laun. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum dettur okkur í hug að setja helmingi meiri skatt á þá sem eru á lægstu bótum undir fátæktarmörkum þegar þeir reyna að bjarga sér?

Eins og hér kom fram hafa Svíar gert svona tilraun, það skilaði því að 30% þeirra sem tóku þátt í þessari tveggja ára tilraun til atvinnuþátttöku fóru ekki aftur inn í kerfið. Það segir okkur líka þá sögu, sem margoft hefur komið fram, að það vill enginn vera í þessu kerfi og því miður er fólk nauðugt í kerfinu. Það er eiginlega fáránlegt að þjóð nýti ekki allan vinnukraft þeirra sem vilja vinna. Það eru öryrkjar starfandi nú þegar og lenda í því aftur og aftur að þurfa að hætta að vinna vegna þess að skerðingar geta orðið svo rosalegar. Við vitum að á ákveðnum tímabilum verður ákveðið krónufall þannig að skerðingin verður alger. Það er vegna þess að við erum búin að byggja upp mannvonskukerfi.

Við fyrirspurn sem lögð var fyrir ríkisstofnanir um hvort þær væru með fatlaða einstaklinga eða örorkubótaþega í vinnu var lítið um svör. Þetta minnir okkur líka á það þegar verið var að hagræða hjá Reykjavíkurborg í Strætó á sínum tíma. Þar var fólki sem var í hjólastólum sagt upp. Það var hagræðingin en það er mikill skortur á vinnandi fólki og því óskiljanlegt með öllu. Þær aðgerðir sem verið er að reyna að koma á með þessu frumvarpi er því góðar fyrir alla.

Með þessu frumvarpi tækjum við það skref að hjálpa þeim einstaklingum sem vilja hjálpa sér sjálfir en kerfið slær alltaf á hendur þeirra vegna þess að það telur að það sé besta og eina leiðin. Ég skil ekki þá röksemdafærslu að það sé betra að hafa viðkomandi öryrkja heima einangraðan í fátækt, jafnvel sárafátækt, og borga honum samt bætur, en vilja ekki koma honum í virkni og gefa honum þannig tækifæri til sjálfsbjargar. Hann fer út á vinnumarkaðinn, hann fær tekjur og ríkið fær skatt. Ef við horfum á þetta frá því sjónarhorni þá græðir ríkið líka hitt að öryrkinn kemur úr einangrun og gerir tilraunir til að vinna á sínum forsendum, ekki kerfisins, en öryrkjar þurfa að fá tækifæri til þess án þess að vera refsað grimmilega á móti.

Við sáum líka hversu fáránlegt þetta kerfi er og grimmdina í því þegar ég mælti fyrir frumvarpi um aldurstengda örorkuuppbót, sem er eitt af því furðulega sem skert er og tekið af viðkomandi öryrkjum þegar þeir verða 67 að aldri og verða heilbrigðir í boði ríkisins. Það virðist eins og þessi hópur, öryrkjar sem vilja gera tilraun til þess að vinna, sé einhvern veginn utangátta, fái hvorki hjálp frá ríkinu í þessu ástandi né aðstoð við að reyna að koma sér út á vinnumarkaðinn. Eins og ég hef sagt áður og ítreka er mun betra að leyfa viðkomandi að reyna að finna sér vinnu þó að það væri ekki nema á þeirra forsendum og gefa þeim þessi tvö ár, gefa þeim tækifæri til að fara að vinna og ríkið fær skatttekjur til baka. Ég treysti því að þetta fólk finni jafnvel ný störf vegna þess að það eru engin takmörk fyrir því hvað fólk getur gert ef það fær tækifæri til þess. En til þess að það sé mögulegt verður það að fá tækifæri.

Vonandi sér ríkisstjórnin ljós í þessu frumvarpi og sér líka að það er hagur ríkisins að koma þessu fyrirkomulagi á. Það er enginn að tapa einu eða neinu. Við erum að tala um tveggja ára aðlögunartímabil til að við getum áttað okkur á því hvort kerfið virkar alveg eins og hjá Svíum. Það er nákvæmlega sama röksemdafærsla sem gildir fyrir það þegar við erum að skerða tekjur eldri borgara af vinnu þeirra. Það eru engin rök fyrir því, það er margsannað að það þarf ekki nema einn einfaldan útreikning til þess. Ríkið hefur hag af því og það sem er mest um vert, fólk líka, öryrkjar hafa hag af því og ég er sannfærður um að heilbrigðiskerfið hafi hag af því líka vegna þess að það er mannskemmandi og endar með álagi á heilbrigðiskerfið ef fólk er einangrað og lamið á því aftur og aftur með ósanngjörnum lögum og því neitað um tilraun til sjálfsbjargar.

Staðreyndin er sú að þeir sem hafa byggt upp almannatryggingakerfið, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn undanfarinna áratuga, hafa byggt upp kerfi sem er mannfjandsamlegt. Kerfi sem segir fólki, hvort sem það er vegna veikinda, slysa eða geðrænna vandamála, að það sé, liggur við, í ruslflokki. Það er búið að byggja upp kerfi sem gerir ekkert annað en að drepa kerfisbundið niður allan vilja, lífsvilja og alla sjálfsbjargarhvöt hjá viðkomandi einstaklingum. Fólk með geðræn vandamál getur unnið. Það getur ekki unnið alltaf en það getur unnið á sínum forsendum. Þá á ríkið ekki að segja við einstakling: Ef þú ert með þennan sjúkdóm þá ætlum við ekki bara að refsa þér heldur einnig að loka þig inni í örorkukerfi sem þú hefur ekki möguleika á að framfleyta þér í. Ef þú ætlar að reyna að vinna kannski tvo, þrjá, eða sex mánuði þá ætlum við refsa þér grimmilega. Það hlýtur að vera svolítið undarlegt fyrirbrigði að ef þú ert tilbúinn að borga einhverjum einstaklingi lágmarksframfærslu sem við vitum öll að hann getur ekki lifað á og ert tilbúinn að borga hana ár eftir ár þá sértu ekki tilbúinn að segja við viðkomandi: Þú mátt fara út að vinna, við skulum borga áfram, farðu að vinna. Vinna eftir þinni getu, færð þín laun, borgar þína skatta til þjóðfélagsins. Þú hefur tilgang. Hver græðir á þessu? Einstaklingurinn, ríkið líka, vegna þess að þegar einstaklingurinn vinnur borgar hann skatt. Meðan hann er heima og ekki í vinnu borgar hann ekki skatt nema af þessari lágmarksframfærslu sem hann fær. Það er auðvitað til háborinnar skammar að mörgu leyti að það skuli vera þannig að viðkomandi borgi skatta af tekjum sem duga ekki til framfærslu og hvað þá að lifa mannsæmandi lífi á.

En það er hægt að breyta þessu. Þetta frumvarp er fyrsta skrefið og að því leyti leyfum við viðkomandi að finna sér vinnu á eigin forsendum þegar hann getur og fara til baka ef hann getur það ekki. Hann getur svo bara komið aftur. Gefum honum þessi tvö ár. Þær röksemdir hafa margoft komið fram að ef það eigi að gera eitthvað svona þá verði það svo vinsælt að allir fari að svindla sér inn í kerfið. En eins og ég hef alltaf sagt, og ítreka það: Þeir sem reyna að svindla sér inn í þetta kerfi eru alvarlega veikir og þar af leiðandi eiga þeir heima í kerfinu. Ég hef ekki hitt einn einasta einstakling sem vill vera lokaður inni í þessu bútasaumaða, ömurlega kerfi. Við erum með ótrúlegustu hindranir í kerfinu. Ef einstaklingur fær aðrar bætur, sérstaklega húsaleigubætur, þá skerðast þær bætur. Kerfið er svo flókið og gildrurnar svo margar að á hverju ári lendir fólk í því stórfurðulega fyrirbæri sem er skerðingardagurinn mikli.

Við þekkjum það af eigin reynslu og höfum mörg séð mynd frá Bretlandi um afleiðingar kerfis þar sem eiginlega má segja að tölvan segi alltaf nei. Viðkomandi var ekki öryrki, hann gat unnið. Afleiðingarnar voru að það kom skýrt í ljós að hann gat ekki staðið undir þeirri kröfu. Við höfum búið til svona kerfi og viðhaldið því, en fyrsta skrefið með þessu kerfi er að samþykkja þetta frumvarp núna og við brjótum upp kerfið. Við erum virkilega að reyna að brjóta upp þetta kerfi sem núverandi ríkisstjórn segist ætla að endurskoða kannski í haust, kannski næstu árin, kannski aldrei. Við skulum vona heitt og innilega að þeir sjái ljósið, samþykki þetta mál, sjái til þess í eitt skipti fyrir öll að við stígum þetta skref. Þetta er bara hænuskref í sjálfu sér en risastórt skref fyrir alla þarna úti. Vonandi fáum við þetta samþykkt og vonandi munu sem flestir reyna sig í þessu kerfi og losna úr kerfinu, því ég get alveg sagt ykkur að það er mjög frelsandi að vera laus úr þessu kerfi. Ég er alveg sannfærður um að það er enginn þarna úti sem vill vera í þessu fátæktarkerfi eða hefur beðið um að vera í sárafátækt. Það er enginn þarna úti sem hefur ekki óskað þess heitt og innilega að sleppa úr því fátæktarfangelsi sem þetta kerfi hefur búið veiku fólki sem hefur ekkert til saka unnið. Ég vona heitt og innilega að þetta frumvarp verði samþykkt.