Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

68. mál
[14:50]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hér er um mikið réttlætismál að ræða í íslensku samfélagi, að breyta lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð þannig að skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja verði tryggð í tvö ár án þess að það skerði örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstaka uppbót á lífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Hér erum við einungis að tala um það að örorkulífeyrisþegum verði gert heimilt að afla sér tekna í tvö ár án þess að útgefið örorkumat verði afturkallað. Hér er um gríðarlega mikilvægt réttindamál að ræða og ég vísa til þess að þetta hefur verið gert annars staðar og svipað úrræði skilaði árangri í Svíþjóð, eins og kemur fram í greinargerð. Þar sneru um 30% þátttakenda aftur út á vinnumarkaðinn eftir tilraun til starfa, þ.e. öryrkjar fengu þarna tilraun til að taka þátt í atvinnulífinu, afla sér atvinnutekna án skerðinga. Það er gríðarlegur hvati í því.

Mig langar að fjalla um tvö atriði í stjórnarskránni sem ég tel að núverandi skerðingar gangi gegn. Í fyrsta lagi stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi þar sem segir, með leyfi forseta:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Í næstu grein á eftir, 76. gr. segir, með leyfi forseta:

„Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“

Ég tel að núverandi skerðingarkerfi gangi gegn atvinnufrelsinu vegna þess að örorkulífeyrisþegar sem fá aðstoð frá ríkisvaldinu með lögum um almannatryggingar og í skjóli stjórnarskrárákvæðisins í 76. gr. um að öllum skuli tryggður réttur til aðstoðar vegna örorku m.a. — þessi réttur, þessi stuðningur, á ekki að skerða atvinnufrelsi sem kveðið er á um í 75. gr. Það er algerlega óviðeigandi að svo sé. Atvinnufrelsið má bara skerða þegar almannahagsmunir krefjast þess og það að leyfa ekki örorkuþegum að afla atvinnutekna, gera tilraun, reyna að komast til sjálfsbjargar, sjá hversu mikilla atvinnutekna þau geta aflað, er algerlega óásættanlegt. Það skerðir rétt þeirra sem er verndaður í stjórnarskránni í 75. gr. varðandi atvinnufrelsi, svo það liggi algerlega fyrir. Réttur til aðstoðar er líka skertur vegna þess að um leið og einstaklingurinn ætlar að fara á vinnumarkaðinn og sjá hversu mikilla tekna starfsgetan getur aflað, þá er strax farið að skerða réttindi í 76. gr. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði sem verður að hafa í huga þegar er farið að skoða félagsleg réttindi sem fólk hefur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ingu Sæland, framsögumanns þessa frumvarps, að flestir ef ekki allir þjóðfélagshópar hafa fengið leiðréttingu á kjörum sínum eftir hrun nema öryrkjar og ellilífeyrisþegar. Mig langar að bæta við, það má líka horfa kannski til húseigenda og þeirra sem tóku lán þar. En það er alveg klárt mál að kjaragliðnun síðustu ára frá hruni hefur verið þannig að þeirra hagur hefur stórkostlega versnað. Kjaragliðnun sýnir það.

Annað atriði sem mig langar að benda á hér er þetta: Hver er aukakostnaður ríkisvaldsins við það að öryrkjar sem eru núna örorkulífeyrisþegar fari á vinnumarkað að afla sér atvinnutekna? Ég tel að sá kostnaður sé enginn. Ef örorkulífeyrisþegi sem fær bætur almannatrygginga, örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót eða tekjutryggingu fer að afla sér tekna líka þá borgar hann skatt til ríkissjóðs af atvinnutekjum sínum. Það er betra að hafa einstakling sem fær örorkulífeyri og fer að vinna fyrir ríkissjóð en að hann sé bara heima og fái örorkulífeyri vegna þess að sá einstaklingur fer að borga tekjuskatt. Það má halda því fram með góðum rökum að ríkið sé betur statt í kjölfarið. Á þetta er aðeins minnst í frumvarpinu og er sagt t.d. þar að ríkissjóður fái skatttekjur af atvinnutekjum öryrkja og ég vil ítreka að það er alveg kristaltært, þannig að aukakostnaður er lítill sem enginn heldur myndi það auka tekjur ríkissjóðs.

Ég vil ekki hafa langa tölu um þetta mál en tek undir það sem samflokksmenn mínir hafa sagt, hv. þm. Inga Sæland og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, í ræðum sínum um þetta mál. Ég tel að það sé mjög mikið mál sem varði grundvallarréttindi sem varin eru í stjórnarskrá og það ætti raunverulega ekki að vera nokkur einasta mótstaða við þetta mál vegna þess að kostnaður fyrir ríkissjóð er enginn heldur mun þetta auka hag ríkissjóðs og við erum einungis að tala um tveggja ára tímabil fyrir einstaklingana til að afla tekna og svo verður gefið út endurmat örorku eftir þann tíma.