Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

68. mál
[14:57]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta sem hv. þingmenn Inga Sæland, Eyjólfur Ármannsson og Guðmundur Ingi Kristinsson hafa sagt hér. Mig langar bara að ítreka það að við hljótum að vilja styðja fólk til sjálfshjálpar og án þess að það svigrúm sem hér er verið að ræða um að sé skapað fyrir öryrkja þá er gríðarleg áhætta fyrir þá að taka skref inn á vinnumarkaðinn, áhætta sem þeir geta ekki tekið. Við verðum að horfast í augu við að lífið er alls konar og við verðum fyrir alls kyns áföllum á leiðinni og sumir eru dæmdir úr leik á vinnumarkaði.

Það þarf hins vegar kannski ekkert alltaf að vera til frambúðar en það getur orðið það ef þeir fá ekki tækifæri til að koma sér inn á hann aftur. Það er mikið áfall að vera dæmdur úr leik og þeir sem eiga möguleika á því þurfa að fá að feta sig áfram aftur inn á vinnumarkaðinn á þeim hraða sem þeir ráða við. Það er allra hagur, bæði þeirra og þjóðfélagsins, ef þeir ná að koma sér aftur inn á vinnumarkaðinn þannig að við eigum að hjálpa þeim til þess, okkur öllum til hagsbóta. Þarna á slagorðið Allir vinna svo sannarlega vel við.