154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

samningar við sjúkraþjálfara.

[15:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Eftir samskipti við veikt fólk undanfarið hef ég áhyggjur af vaxandi streitu hjá illa veiku fólki sem hefur ekki efni á að fara í sjúkraþjálfun. Það ætti einnig að vera mikið áhyggjuefni hjá heilbrigðisráðherra því að aukin streita bætist ofan á veikindin sem fyrir eru og veldur þá enn meira heilsutjóni. Stóraukin streita vegna fjárhagsáhyggna ásamt því að komast ekki í sjúkraþjálfun er óboðlegt með öllu. Við vitum að langvarandi veikindi og streita styttir lífaldur fólks og framkallar ýmsa óæskilega heilsufarskvilla á borð við aukna verki, kvíða, aukna gigtarverki ásamt fjölda annarra sjúkdóma sem getur bitnað illa á lífsgæðum og langlífi fólks. Fyrst þarf illa veikt fólk að kveljast mánuðum eða árum saman á biðlista eftir aðgerðum með tilheyrandi tekjutapi og síðan eftir aðgerðum heima hjá sér vegna þess að það hefur ekki efni á sjúkraþjálfun. Sjúkraþjálfun er þjóðhagslega hagkvæm og með aukinni greiðsluþátttöku ríkisins dregur úr nýgengi örorku vegna stoðkerfissjúkdóma og hefur mest áhrif á einstaklinga sem eru 50 ára og eldri og veikast standa. Þessi ávinningur er að stórum hluta horfinn og er að tapast alveg og það er bara vegna þess að öryrkjar hafi ekki efni á sjúkraþjálfun. Því verður að tryggja gott aðgengi að þjónustu sjúkraþjálfara fyrir öryrkja og aðra þá sem hafa ekki efni á að borga sérstaklega tugþúsundir króna á mánuði fyrir þjónustu þeirra og það vegna sparnaðar hjá heilbrigðisráðherra í málaflokknum og vegna samningsleysi við sjúkraþjálfara svo árum skiptir.

Í fjáraukanum sem við höfum nú til meðferðar hér á þingi kemur fram að sparnaður í sjúkra- og talþjálfun er 1 milljarður og 400 milljónir, þ.e. kostnaður sjúkra- og talþjálfunar á síðasta ári er um 1,4 milljörðum undir fjárhagsáætlun. Að borga 20.000–30.000 kr. á mánuði aukalega vegna sjúkraþjálfara er öryrkjum og mörgu öldruð fólki fjárhagslega ofviða. Hvað er hæstv. heilbrigðisráðherra að gera, eða ekki að gera, í að semja við sjúkraþjálfara?