131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Veggjöld.

149. mál
[12:19]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér finnst hins vegar að þrátt fyrir merkilegar upplýsingar um möguleika á að ná út fjármunum með því endurfjármagna lán hjá Speli, þá vanti dálítið mikið upp á að hér séu einhverjar yfirlýsingar um hvað ríkið vill gera á móti til þess að hægt sé að lækka gjöldin svo um munar. Það er talað um að hægt sé að lækka tryggingar um 10 milljónir á ári. Það hafa þeir Spalarmenn þegar fundið út og eru búnir að fá þá upphæð niður. Það mun enginn sem keyrir þessi göng fallast á að taka upp sjálfvirka innheimtu þar, þá yrðu ekki verðir til staðar við eftirlit í göngunum. Það mun aldrei verða niðurstaðan.

Hæstv. ráðherra sagði nánast: Spölur getur lækkað. En hæstv. ráðherra upplýsti ekki hvað ríkið gæti gert. Ég tel að það sé komið að því að menn komi því á hreint. Það er ekki til neitt mannvirki í þessu landi þar sem eru svona reglur í gangi. Eftir 20 ára rekstur ganganna mun ríkið fá þetta mannvirki afhent skuldlaust og þeir sem keyra um göngin borga. Ríkið innheimtir skatt af því fólki sem keyrir um göngin. Er ekki nóg að fá göngin í hendurnar skuldlaust?