131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Undirbúningur í heilbrigðiskerfinu vegna umskorinna kvenna.

113. mál
[13:10]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir að hreyfa málinu í fyrirspurnatíma. Það er rétt við umræðuna að vekja athygli á því frumvarpi sem liggur frammi þar sem þingflokksformenn allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi Íslendinga hafa lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir að umskurður á konum, limlesting á kynfærum kvenna, verði bönnuð samkvæmt íslenskum lögum.

Ég hvet einungis til þess í umræðunni að frumvarpið fái hraða meðferð í þinginu. Ég held að Íslendingar eigi að ganga á undan með góðu fordæmi í þessum efnum. Reyndar hafa nokkur nágrannalönd okkar sett sams konar lög og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir alþjóðasamfélagið sem berst gegn limlestingum á kynfærum kvenna að þeim löndum fjölgi sem banni þennan verknað með lögum.