132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Aðgangur að opinberum háskólum.

114. mál
[15:50]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Um er að ræða 1000 manns. Hæstv. menntamálaráðherra hefur farið yfir það að á árinu 2005 var 1000 manns synjað um að sækja háskólanám. Við vitum um þann mikla vanda sem um er að ræða í Kennaraháskóla Íslands og er auðvitað svartur blettur á menntakerfinu og því miður á hæstv. menntamálaráðherrum undanfarið. Við vitum hins vegar ekki um töluna í Háskóla Íslands og Háskóla Akureyrar vegna þess að það er fullt af fólki sem ekki sækir um nám þar vegna þess að háskólarnir hafa auglýst það sérstaklega, nú síðast í Morgunblaðinu fyrir tveimur vikum, hygg ég, auglýsti Háskóli Íslands að ekki verði tekið á móti því fólki sem ekki hefur stúdentspróf. Hvaða fólk er það? Það er fólk aðallega á miðjum aldri og það eru aðallega konur. Við erum að fara að ræða hérna raunfærnimat á eftir hygg ég og þetta er mjög athyglisvert innlegg í þá umræðu.