135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fyrirspurn á dagskrá.

[18:02]
Hlusta

Jón Björn Hákonarson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil beina því til virðulegs forseta að samkvæmt dagskrá sem var útbýtt í dag vegna fyrirspurnatíma átti að taka fyrir fyrirspurn frá mér. Fyrirspurn mín var lögð fram á miðvikudag í síðustu viku til hæstv. heilbrigðisráðherra, 295. mál á þskj. 335, um notkun lyfsins Tysabri. En þegar ég kom til þingfundar kl. 12.30 þá var mér tjáð að sökum manneklu og veikinda í heilbrigðisráðuneytinu hefði ekki gefist tóm til að svara fyrirspurninni.

Sem varaþingmaður hef ég takmarkaðan tíma hér á Alþingi og ég veit að oft er kappkostað að svara þeim fyrirspurnum sem koma frá varaþingmönnum á þeim tíma sem þeir koma inn á þing. Ég vil lýsa því yfir að mér þykir mjög leitt að uppi séu veikindi í heilbrigðisráðuneytinu, en mér finnst afar leitt að þessu skuli ekki hafa verið svarað. Það er ekki endilega mín vegna heldur vegna þeirra 30 einstaklinga sem bíða þessara svara líka.

Þetta er ekki nýtt lyf, það er búið að vera tvö ár í þróun. MS-sjúklingar sem bíða eftir að það verði tekið upp hafa fengið þau svör að það hefði átt að fara í notkun um síðustu áramót og síðan hefur það dregist og dregist. En þessir sjúklingar geta ekki beðið. Þingmenn geta kannski beðið en MS-sjúklingar geta það ekki. Því vil ég leyfa mér að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi ekki getað svarað mér í dag. Mér finnst að það hefði átt að vera einfalt að svara máli sem hefur verið svona lengi í skoðun í ráðuneytinu. Enn þá alvarlegra finnst mér að enn einu sinni skulum við láta þann fjölda Íslendinga sem glíma við þennan alvarlega sjúkdóm bíða. MS-sjúkdómurinn er þess eðlis að menn sjá ekki mörg ljós í myrkrinu en þegar það gerist, eins og nú með þessu lyfi, eru mikil vonbrigði að það skuli ekki vera nýtt.

Ég vil því lýsa yfir vonbrigðum mínum með að hafa ekki fengið svar við þessu og um leið fyrir hönd þessa stóra hóps og aðstandenda þeirra sem þurfa svo sannarlega á þessu að halda. Þetta er lyf sem virkar á sjúkdóminn í um 80% tilfella meðan önnur lyf sem verið er að gefa núna hafa virkað á um 35%. Ég hefði viljað fá svör um hvort og hvenær ætti að byrja að gefa lyfið og náttúrlega hefði ég einnig viljað sjá að það færi í notkun.