135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fyrirspurn á dagskrá.

[18:08]
Hlusta

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að hann hefur upplýsingar um að fyrirspurnin hafi farið á dagskrá með fyrirvara þar sem ekki var ljóst hvort unnt yrði að svara henni og hv. fyrirspyrjanda, þingmanninum sem kvaddi sér hljóðs um fundarstjórn forseta var kunnugt um það.

Nú spyr ég hv. þingmenn: Óska þeir eftir því, ef hæstv. ráðherra er í húsinu, að hann komi hér? Ég veit ekki til að það hafi komið nein ósk um það. Ég vil benda hv. þingmanni á að það er alsiða að þingmenn bíði lengi eftir svörum frá ráðherrum og ef fyrirspurnin kemur á dagskrá eftir að hv. þingmaður er farinn út af þingi, þá er hægt að óska eftir skriflegu svari eða þá að annar hv. þingmaður mæli fyrir fyrirspurninni. Það er alsiða.

Forseti kannast ekki við að það hafi verið neitt athugavert við fundarstjórn forseta og ekki er komin nein ósk um að leitað verði eftir ráðherranum þannig að … (Gripið fram í.) Er hv. þingmaður að óska eftir því að taka til máls um fundarstjórn forseta? Forseti veit ekki til að það sé neitt athugavert við fundarstjórnina en hv. þingmaður getur tekið til máls engu að síður.