135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starfshópur ráðherra um loftslagsmál.

199. mál
[19:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það hefur verið svolítið erfitt að átta sig á því hvert ríkisstjórnin stefnir varðandi loftslagsmálin og þegar þau eru rædd hér hefur hæstv. umhverfisráðherra farið með almenna frasa um Kína og Indland og mikilvægi þess að þau lönd séu með og ég held að það séu allir sammála því. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann andmæla því en hæstv. ráðherra hefur vikið sér undan því að tala um svokallað íslenskt ákvæði. Þess vegna hef ég borið fram fyrirspurn sérstaklega um það mál vegna þess að það er starfshópur sem á að skoða samningsmarkmiðin. Mig langar til að vita hvenær þessi hópur skilar af sér og það sem ég er sérstaklega að fiska eftir er íslenska ákvæðið.

Það geri ég, virðulegi forseti, vegna þess að hæstv. umhverfisráðherra segir á umhverfisþingi að Ísland eigi ekki að biðja um undanþágur og það er túlkað sem svo að það sé íslenska ákvæðið í þessu almenna tali. Forsætisráðherra hefur hins vegar sagt að við eigum að viðhalda íslenska ákvæðinu og síðan þegar hæstv. umhverfisráðherra er innt eftir þessu í fjölmiðlum þá segir hæstv. ráðherra: Það er ekki tímabært að tala neitt um þetta. Ég tel að það þurfi að ræða þessi mál og vil því inna ráðherrann eftir því hvert stefnir.

Ætlar Ísland að sækjast eftir því að viðhalda íslenska ákvæðinu eða einhverju ígildi þess? Það hefur verið rætt svolítið um þessa svokölluðu geiranálgun en íslenska ákvæðið ber bara hreinræktað geiraákvæði vegna þess að það snýr að orkufrekum iðnaði sem hér á landi hefur verið framleiðsla á áli og það er alger geiranálgun í ákvæðinu. Það er sem sagt verið að opna á að hægt sé að framleiða ál án þess að það komi beint inn á landskvóta okkar, það er í sérstökum kvóta, sérstöku svokölluðu boxi þar sem í eru einingar af koltvíoxíð. Það er íslenska ákvæðið þannig að þetta er alveg hreinræktuð geiranálgun má segja.

Það er alveg ljóst að ríki heims standa frammi fyrir miklum vanda í þessu og það er búið að sýna fram á það að á næstu árum, til 2030 mun orkunotkun aukast um 55% í heiminum, það er alveg búið að reikna það út, við vitum það. Það er líka ljóst að langmest af þessari orkuþörf hefur verið mætt af kolum, olíu og gasi og reyndar langmest af olíu. 85% af þessari fyrirsjáanlegu orkuþörf verður mætt af jarðefnaeldsneytum, fjandsamlegum eldsneytum, séð frá lofthjúpnum. Verkefnið gengur því aðallega út á það hvernig við getum náð að hreinsa þessa slæmu orkugjafa, kol, olíu og gas. Menn hafa talað um að fanga koltvíoxíð og binda koltvíoxíð í jarðveginn. En við getum framleitt ýmislegt með okkar ágætu hreinu orkugjöfum og því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver stefnir? Hvað ætlar Ísland að gera á Balí og í framhaldinu?