135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

viðskipti með aflamark og aflahlutdeild.

213. mál
[20:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta var út af fyrir sig fróðlegur upplestur um skattalega meðferð samkvæmt gildandi lögum en kjarninn er kannski sá að hann fjallaði um skattalega meðferð eigna og fiskveiðiheimildir eru ekki eign útvegsmanns, það er kjarni málsins. Það gilda engar reglur um meðferð útvegsmanns á þeim veiðiheimildum sem honum eru færðar til umráða í þeirri löggjöf sem vikið er að í þessari fyrirspurn. Það eru ekki einu sinni neinar reglur í löggjöfinni sem gilda um það hvernig viðskiptin eigi að fara fram, hvar eða með hvaða hætti. Það stendur hvergi í löggjöfinni að útvegsmönnum sé heimilt að selja þessar heimildir gegn endurgjaldi, það hefur aldrei verið sett í löggjöf.

Hvers vegna skyldi það vera, virðulegi forseti? Útvegsmenn nota þessar veiðiheimildir í dag til þess að féfletta suma aðra útvegsmenn sem eru kvótalitlir. Ég er með nokkur dæmi um að útvegsmönnum, sem eiga litlar veiðiheimildir og eru að reyna að gera út sína báta, er stillt upp við vegg af hálfu annarra útvegsmanna sem hafa þessar þorskveiðiheimildir undir höndum og pína þá til að veiða fyrir sig þorsk fyrir smánarpening, fyrir 30–40 kr. á kílóið. Menn taka þessu tilboði vegna þess að það gefur mönnum kost á að fara á sjóinn og veiða ýsu eða aðrar tegundir þar sem menn geta aflað sér veiðiheimilda sem eru ódýrari. Þarna eru þeir sem hafa þorskveiðiheimildir undir höndum að nota þær til að féfletta aðra útvegsmenn. Hvaða löggjöf heimilar útvegsmönnum að fara svona með það sem þeir eiga ekki sjálfir? Þetta er algjörlega ófært, virðulegi forseti, og ég held að það sé kominn tími til að sjávarútvegsráðherra beiti sér fyrir því að sett verði almenn löggjöf um (Forseti hringir.) viðskipti með aflaheimildir.