135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

markmið heilbrigðisáætlunar til ársins 2010.

226. mál
[21:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tek undir það sem fram kom í máli ráðherra að aukinn kaupmáttur þýðir aukin neysla, það er í samræmi við þær upplýsingar sem ég hef um málið og eru byggðar á rannsóknum fjölmargra aðila í fjölmörgum löndum þannig að ég held að óhætt sé að treysta þeim niðurstöðum.

Ég tek líka undir það, og hafði svo sem einhverjar upplýsingar um það líka, að að sumu leyti hefði náðst góður árangur meðal ungmenna og það skiptir miklu máli. Eins og kom fram í svörum hæstv. ráðherra eru þeir sem ekki eru byrjaðir að drekka ungir líklegri til að halda því áfram. Ég held að hægt sé að gera býsna mikið í því að breyta viðhorfinu á þeim árum. Ég held að þing og ríkisstjórn og aðrir áberandi aðilar í þjóðlífinu eigi að taka sig saman um að vinna að þeirri viðhorfsbreytingu, hún skiptir miklu máli og getur skilað góðum árangri í langan tíma. Við eigum að ganga á undan með góðu fordæmi, með því að breyta viðhorfi til áfengis.

Mér finnst að af hálfu opinberra aðila, hvort sem það eru sveitarstjórnir, t.d. borgarstjórnin í Reykjavík, eða ríkisstjórnin, hafi verið ákaflega vinsamlegt viðhorf gagnvart áfengi, boðið er upp á áfengi í veislum og við opinber tækifæri. Við getum breytt viðhorfinu til áfengis eins og þessir sömu aðilar gerðu á sínum tíma varðandi tóbak með mjög góðum árangri, að vísu hefur aðeins slaknað á því á seinni árum vegna þess að þeim áróðri sem þá var rekinn hefur ekki verið fylgt eftir. Hæstv. ráðherra gerði vel í því að taka upp þráðinn þar á nýjan leik og halda merkinu hátt á lofti eins og áður var.